Hoppa yfir valmynd
3. maí 2017 Innviðaráðuneytið

Jón Gunnarsson ávarpaði alþjóðlegan ráðherrafund um hafnarríkiseftirlit

Jón Gunnarsson ávarpar ráðherrafund í Kanada um siglingaöryggi. - mynd

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tekur þátt í alþjóðlegum ráðherrafundi um hafnarríkiseftirlit, þ.e. eftirlit ríkja með erlendum skipum sem koma í höfn, að þau uppfylli kröfur alþjóðasamþykkta. Fundurinn er  haldinn í Vancouver í Kanada og mun ráðherra einnig hitta kanadískan starfsbróður sinn á fundi.

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tekur þátt í alþjóðlegum ráðherrafundi um hafnarríkiseftirlit, þ.e. eftirlit ríkja með erlendum skipum sem koma í höfn, að þau uppfylli kröfur alþjóðasamþykkta. Fundurinn er haldinn í Vancouver í Kanada og mun ráðherra einnig hitta kanadískan starfsbróður sinn á fundi.

Þetta er þriðji ráðherrafundurinn þar sem fjallað er um hafnarríkiseftirlit og eru aðildarríki alþjóðasamninganna að leggja áherslu á þá sameiginlegu sýn að tryggja öryggi sjófarenda og vernd lífríkis sjávar. Á fundinum greina fulltrúar ríkjanna frá því sem áunnist hefur í hafnarríkiseftirliti og ráðherrar undirrita viljayfirlýsingu um efnið.

Ísland mjög háð siglingum

Í upphafi ræðu sinnar nefndi Jón Gunnarsson hversu háðir Íslendingar væru flutningum á sjó, að um 95% alls útflutnings og innflutnings færi fram með skipum. Efnahagslíf landsins væri einnig mjög háð fiskveiðum og væru fiskafurður megin uppistaða útflutningsvara þjóarinnar.

Ferðaþjónustan væri mjög vaxandi atvinnugrein sem væri háð flugsamgöngum en í vaxandi mæli einnig farþegaflutningum með skemmtiferðaskipum og hefði komum þeirra í íslenskar hafnir fjölgað mjög síðustu árin. Öryggi í siglingum og mengunarvarnir væru því afar áríðandi vegna fiskveiðanna og því væri eftirlit með skipum og siglingum mjög mikilvægt.

Ráðherra sagði að á ári hverju kæmu kringum 350 skip til landsins, mörg hver oftar en einu sinni og væri all nokkur fjöldi þeirra skoðaður hérlendis. Hann sagði nýjar áskoranir krefjast aðgerða aðildarríkja og að Ísland styddi aðgerðir sem taldar væru upp í viljayfirlýsingunni.

Hann sagði að Ísland hefði ávallt lagt mikla áherslu á að öryggi í fiskveiðiskipum væri brýnt og að aðildarríkin fullgiltu Torremolinos-samkomulagið frá 1977 um öryggi í fiskveiðum. Sagði hann banaslysum á íslenskum fiskiskipum hafa fækkað umtalsvert síðustu 40 árin og sum síðustu ár hefðu verið án banaslysa. Þakkaði hann það betra regluverki og betri búnaði skipanna. Með hertum sameiginlegum aðgerðum ríkjanna væri hægt að styrkja baráttuna við ólöglegar og eftirlitslausar fiskveiðar. Með aðild sinni að Parísarsamkomulaginu sýndi Ísland vilja sinn til að stunda ábyrgar, umhverfisvænar og öruggar fiskveiðar og siglingar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum