Hoppa yfir valmynd
12. maí 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Sálfræðiþjónusta fyrir fyrrverandi vistmenn Kópavogshælis

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita þrjár milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu til að bjóða fyrrum vistmönnum Kópavogshælis og aðstandendum þeirra sálfræðiþjónustu og stuðning. Áætlað er að um 50 einstaklingar muni þiggja slíka þjónustu.

 

Vistheimilanefnd sem kannaði vistun barna á Kópavogshæli árin 1952-1993 skilaði dómsmálaráðherra skýrslu sinni þann 7. febrúar 2017. Nefndin var skipuð af forsætisráðherra á grundvelli laga nr. 26/2007 til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

Í kjölfar skýrslunnar leitaði innanríkisráðuneytið eftir samstarfi við velferðarráðuneytið varðandi það hvort unnt væri að veita fyrrum vistmönnum Kópavogshælis og aðstandendum þeirra sálfræðiþjónustu og stuðning þeim að kostnaðarlausu vegna þeirra alvarlegu mála sem koma fram í skýrslunni. Fordæmi eru fyrir sérstökum fjárveitingum sem samþykktar hafa verið af ríkisstjórn fyrir slíkum stuðningi svo sem í tilfellum fyrrverandi vistmanna Breiðavíkurheimilisins.

Velferðarráðuneytið áætlar að um 50 einstaklingar muni þiggja slíka þjónustu. Landssamtökum Þroskahjálp verður falið að halda utan um framkvæmd verkefnisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum