Utanríkisráðuneytið

Samvinna og sjálfbærni á norðurslóðum

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra undirritar samning aðildarríkja Norðurskautsráðsins á sviði rannsókna og vísindaathugana á norðurslóðum - myndArctic Council Secretariat / Linnea Nordström

Utanríkisráðherrafundi Norðurskautsráðsins, sem fram fór í Fairbanks í Alaska, lauk í gærkvöld en á fundinum, sem markar lok formennsku Bandaríkjanna í ráðinu og upphaf formennsku Finnlands, ræddu utanríkisráðherrar Norðurskautsríkjanna átta málefni norðurslóða og störf og áætlanir Norðurskautsráðsins til næstu ára. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók þátt í fundinum og var meðal annars undirritaður samningur ríkjanna á sviði rannsókna og vísindaathugana á norðurslóðum. Samningnum er ætlað að auðvelda vísindamönnum og rannsóknarstofnunum að vinna saman að rannsóknum á svæðinu sem í auknum mæli kalla á víðtækari samvinnu milli ríkjanna í ráðinu sjálfu og aðila utan ráðsins sem einnig vinna að rannsóknum á lofti, láði og legi á svæðinu.

Í ávarpi sínu undirstrikaði utanríkisráðherra mikilvægi norðurslóða í utanríkisstefnu Íslands og lagði áherslu á ábyrgð norðurskautsríkjanna við að vernda og tryggja sjálfbærni norðurslóða. „Í viðleitni okkar til að rísa undir þessari ábyrgð hefur starf okkar tekið mið af umhverfisvernd, sjálfbærri efnahagsþróun og nýtingu náttúruauðlinda, öryggi, innviðum og fjarskiptum,“ sagði Guðlaugur Þór. Þá minnti hann enn fremur á mikilvægi málefna hafsins sem varðaði Ísland miklu. „Það er sífellt augljósara að loftslagsbreytingar hafa áhrif á vistkerfi hafsins og sú þróun er áhyggjuefni fyrir Ísland, sem byggir afkomu sína í svo ríkum mæli á auðlindum sjávar.“

Ráðherrarnir samþykktu einnig yfirlýsingu fundarins og skýrslu embættismannanefndar ráðsins en hún greinir frá áherslum síðustu tveggja ára og markar stefnuna fyrir næstu ár undir formennsku Finnlands. Utanríkisráðherra Finna kynnti áherslur formennskuríkisins næstu tvö árin, en þar er meðal annars að finna verkefni sem lúta að menntun á grunn- og unglingastigi á norðurslóðum, aukna samvinnu á sviði veðurfræði, verkefni á sviði umhverfisáhrifa, auk þess sem beint verður sjónum að fjarskiptum á norðurslóðum íbúum þess til hagsbóta.Auk norðurskautsríkjanna átta og sex frumbyggjasamtaka tóku fulltrúar hinna 32ja áheyrnaraðila að ráðinu þátt í fundinum. Samþykkt var að veita sjö nýjum aðilum áheyrnaraðild að ráðinu, þar á meðal Vestnorræna ráðinu. „Það er sérstaklega ánægjulegt að vinir okkar og nágrannar á Grænlandi og í Færeyjum fái nú aukna aðkomu að starfsemi ráðsins í gegnum Vestnorræna ráðið og lagði Ísland þunga áherslu á að samþykkja umsókn þess,“ segir Guðlaugur Þór.

Utanríkisráðherra átti einnig tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum Finnlands og Kanada þar sem rædd voru samskipti landanna á norðurslóðum og tvíhliða mál. Á fundi með utanríkisráðherra Finnlands, Timo Soini, ræddu ráðherrarnir samvinnu í aðdraganda komandi formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu árin 2019-2021 og fund utanríkisráðherra í Eystrasaltsráðinu á Íslandi í júní nk. Á fundi með Chrystia Freeland, utanríkisráðherra Kanada, var rætt um málefni norðurskautsins og gagnkvæman vilja landanna til að styrkja og efla samstarf á sviði viðskipta og menningarmála.„Norðurslóðamálefni eru meðal helstu áherslumála í utanríkisstefnu Íslands og sérstaklega er ánægjulegt hversu góð samvinna og mikill samhljómur er í áherslum norðurskautsríkja þegar kemur að málefnum norðurslóða. Ísland mun áfram leggja sitt af mörkum til sjálfbærrar þróunar svæðisins,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, en Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu af Finnum árið 2019 og er undirbúningur þegar hafinn að mótun formennskuáætlunar.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn