„Missum ekki sjónar á aðstæðum þeirra sem veikast standa á vinnumarkaði“

Ráðherra í pontu á ársfundi Vinnumálastofnunar - myndVelferðarráðuneyti

Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra leggur mikla áherslu á verkefni og aðgerðir sem gera sem flestum kleift að vera þátttakendur á vinnumarkaði, með eða án stuðnings. Um þetta fjallaði hann meðal annars á ársfundi Vinnumálastofnunar sem haldinn var í gær.

Ársfundurinn bar yfirskriftina Vinnumarkaður í þenslu þar sem sjónum var beint að þeim viðfangsefnum stofnunarinnar sem fylgja miklum umsvifum í atvinnulífinu og örum vexti í ýmsum greinum. Fram kom í máli Gissurar Péturssonar forstjóra Vinnumálastofnunar á fundinum að starfandi fólki hafi fjölgað um 7.000 milli áranna 2015 og 2016. Atvinnuþátttaka árið 2016 var komin í rúm 89% sem sé heimsmet og hún hafi aukist hér á landi í öllum aldurshópum á sama tíma og erlendum ríkisborgurum hafi fjölgað stórlega.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, minntist þess í upphafi ræðu sinnar hvernig aðstæður voru hér árið 2010 þegar atvinnuleysi mældist hvað mest og sagði að fæstir hefðu trúað því þá að fáum árum síðar yrði þensla á vinnumarkaði umfjöllunarefni á ársfundi Vinnumálastofnunar. Hann sagði flest benda til að staðan nú væri byggð á traustari grunni en áður. Mikilvægt væri að nota tækifærið og skoða hvaða breytingar til góðs megi nú gera meðan vel viðrar í efnahagslífinu.

Ráðherra ræddi annars vegar um aðgerðir til að bregðast við félagslegum undirboðum á vinnumarkaði og sporna við glæpum eins og mansali. Þenslan á vinnumarkaði kallaði á erlent starfsfólk til að viðhalda og auka verðmætasköpun, en það mætti aldrei vera á kostnað réttinda þessa fólks eða leiða til félagslegra undirboða. Hann hrósaði þeim atvinnurekendum sem að eigin frumkvæði hafa tekið upp svokallaða keðjuábyrgð og sagðist jafnframt leggja áherslu á að hún verði lögleidd í samræmi við frumvarp hans þess efnis sem nú liggur fyrir Alþingi.
Ráðherra gerði að umtalsefni fjölgun öryrkja og sagði mikilvægt að afla meiri þekkingar á því hvað veldur og finna leiðir til að efla stuðning og auka starfsgetu fólks með markvissri starfsendurhæfingu þannig að fleiri geti framfleitt sér sjálfir með þátttöku á vinnumarkaði.

„Það er mjög mikilvægt að við missum ekki sjónar á aðstæðum þess fólks sem er veikast fyrir á vinnumarkaðinum. Einmitt núna eigum við að leggja allt kapp á að bæta aðstæður á vinnumarkaðinum með þarfir þessa fólk í huga. Markmiðið er skýrt. Við viljum auka atvinnuþátttöku fólks, auka sveigjanleika, efla endur- og símenntun og gera þær úrbætur á almannatryggingakerfinu og skattkerfinu sem við teljum líklegar til að styðja þá viðleitni að gera sem allra flestum kleift að vera virkir þátttakendur á vinnumarkaðinum, með eða án stuðnings eftir atvikum“ sagði Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn