Hoppa yfir valmynd
19. maí 2017 Dómsmálaráðuneytið

Samningur OECD gegn erlendum mútubrotum kynntur atvinnulífi og fagfélögum

Dómsmálaráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafa í sameiningu vakið athygli samtaka í atvinnulífinu og fagfélaga á Samningi um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum. Ísland er aðili að þessum samningi og ber að bregðast við tilmælum Vinnuhóps OECD um erlend mútubrot sem sér um að fylgja eftir innleiðingu samningsins gagnvart aðildarríkjum.

Með orðsendingu sem send var Samtökum atvinnulífsins, helstu aðildarfélögum SA auk fleiri hagsmunasamtaka og fagfélaga, vilja ráðuneytin styðja við vitundarvakningu meðal þessara aðila í því skyni að efla varnir gegn spillingu og mútum. Í viðauka II við umræddan samning OECD er að finna leiðbeiningar um góða viðskiptahætti fyrirtækja með því að þau beiti innra eftirliti, taki upp siðareglur og grípi til fleiri aðgerða. Í viðaukanum er minnt er á að fagfélög geti veitt mikilvægan stuðning í því efni.

Erlend mútubrot þar sem opinberum starfsmönnum er mútað þvert á landamæri eru vandamál í alþjóðlegum viðskiptum. Þessi brot grafa undan góðri stjórnsýslu og efnahagsþróun og skekkja samkeppnissstöðu á alþjóðavettvangi. Meginmarkmið OECD-sáttmálans er að aðildarríkin geri það refsivert að bera mútur á erlenda opinbera erlenda starfsmenn í þeim tilgangi að þeir bregðist starfsskyldum sínum, mútugreiðandanum til hagsbóta. Múturnar geta verið gjafir, peningar eða annar ávinningur sem hinn opinberi starfsmaður á ekki rétt á.

Íslenskum lögum hefur verið breytt til samræmis við samninginn sem tók gildi hér á landi árið 1999. Allt að fjögurra ára fangelsi liggur við broti af þessu tagi samkvæmt 109. grein almennra hegningarlaga eða sektir ef viðkomandi eiga sér málsbætur. Lögum samkvæmt geta íslensk yfirvöld líka sótt þá til saka sem brjóta gegn lagaákvæðinu erlendis. Erlendir opinberir starfsmenn sem þiggja mútur eiga yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi eða sömu refsingu og starfsbræður þeirra hér á landi sem gerast sekir um mútuþægni, sbr. 128. grein almennra hegningarlaga. Í drögum að frumvarpi sem kynnt var á vef ráðuneytisins er m.a. lagt til að þyngja hámarksrefsingu fyrir mútuboð samkvæmt 109. grein í sex ára fangelsi, bæði fyrir innlend og erlend mútubrot.

Tilgangurinn með starfi Vinnuhóps OECD um erlend mútubrot er ekki síður að stuðla að vitundarvakningu í aðildarríkjunum og efla þannig varnir gegn spillingu og mútum. Meðal tilmæla sem vinnuhópurinn hefur beint til íslenskra stjórnvalda er að þau veki athygli fyrirtækja og hagsmunasamtaka á fyrrnefndum viðauka við OECD-sáttmálann gegn erlendum mútubrotum og við því er nú verið að bregðast.

Íslensk fyrirtæki hafa almennt lagt sig fram um að viðhafa og efla góða stjórnarhætti - aukinn áhugi er t.d. á samfélagslegri ábyrgð og nefna má þátttöku sífellt fleiri fyrirtækja í UN Global Compact þar sem m.a. er lögð áhersla á að berjast gegn spillingu og mútum. Dómsmálaráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leggja einnig áherslu á jákvæða hvata fyrir fyrirtæki og samtök á þessu sviði og vonast eftir áframhaldandi samstarfi við atvinnulífið og hagsmunasamtök. Meðal annars stóðu ráðuneytin fyrir námskeiði fyrir endurskoðendur í nóvember í fyrra þar sem fjallað var um góða stjórnarhætti og hlutverk endurskoðenda í að vera á varðbergi gagnvart mútubrotum, þar á meðal erlendum mútubrotum. Þá má geta þess að lögum um ársreikninga hefur verið breytt og stór fyrirtæki hér á landi eiga nú að gera grein fyrir því í yfirliti með skýrslu stjórnar hvernig þau sporna við við spillingar- og mútumálum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum