Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Málefni Handverks- og hússtjórnarskólans á Hallormsstað

Málefni Handverks- og hússtjórnarskólans á Hallormsstað hafa verið til athugunar í mennta- og menningarmálaráðuneyti um nokkurt skeið. Á fundi þann 5. janúar sl. tilkynntu forráðamenn skólans ráðuneytinu að vegna nemendaskorts hefðu skólastjórnendur gripið til þess úrræðis að bjóða ekki upp á kennslu á vorönn 2017 en aðeins tveir nemendur höfðu þá óskað eftir skólavist. Ráðuneytið taldi að forsendur skv. 2. grein samnings ráðuneytisins við skólann, sem m.a. kveður á um lágmarksfjölda nemenda, væru því brostnar. Skólanum var tilkynnt um þetta í bréfi dags. 3. febrúar 2017 og að skólanum yrði greiddur þriggja mánaða uppsagnarfrestur t.o.m. 1. apríl 2017.

Handverks- og hússtjórnarskólinn á Hallormsstað hefur starfað sem einkaskóli á framhaldsskólastigi. Boðið hefur verið upp á einnar annar nám en það samrýmist ekki þeim viðmiðum sem sett voru um námsbrautir í aðalnámskrá framhaldsskóla 2011. Skólinn hefur því ekki þá viðurkenningu sem þarf til að starfa sem einkaskóli á framhaldsskólastigi. Skólameistari sendi ráðuneytinu gögn 24. mars sl. þar sem fram koma hugmyndir um framtíðarmöguleika skólans. Hugmyndir um nýtt námsframboð, sem þar koma fram, eru ekki fullmótaðar og þyrfti að þróa áfram til að námsbrautalýsingarnar fullnægi skilyrðum til að fá staðfestingu ráðuneytisins. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að skilyrði til að námsbrautalýsingar verði samþykktar byggjast ekki síst á því að tryggja hagsmuni nemenda, t.d. að hægt sé að meta það nám, sem þeir stunda, til framhaldsskólaeininga sem gilda einnig í öðrum framhaldsskólum eða til starfsréttinda.

Sérstaða Handverks – og hússtjórnarskólans á Hallormsstað býður upp á möguleika sem nýst gætu fyrir fjölbreytt menntunarúrræði þó svo námstilboð skólans þar falli ekki að viðmiðum sem sett eru fyrir nám á framhaldsskólastigi. Skólinn þarf að finna leiðir til að geta haldið áfram starfsemi, annað hvort sem framhaldsskóli með viðurkenndar námsbrautir eða með námsframboði sem félli innan ramma framhaldsfræðslunnar. Engar ákvarðanir hafa enn verið teknar í því sambandi og standa vonir til þess að úr ráðist á næstu vikum. Rétt er þó að geta þess að endanlegar ákvarðanir um áframhaldandi skólahald á Hallormsstað eru í höndum sjálfseignarstofnunarinnar sem rekur skólann.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn