Utanríkisráðuneytið

Aukin skilvirkni og aðrar innri aðgerðir ekki síður mikilvæg en aukning hlutafjár

Guðlaugur Þór og Jim Young Kim - mynd
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók í gær þátt í árlegum samráðsfundi ráðherra kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í Alþjóðabankanum með Jim Young Kim forseta bankans.

Mikilvægi fjárhagslegrar styrkingar Alþjóðabankans var ofarlega á baugi, en ljóst þykir að þörfin fyrir aðstoð og fjármagn hefur nær aldrei verið meiri. Lagði utanríkisráðherra áherslu á mikilvægi þess að bankinn kanni allar leiðir til fjármagnsaukningar þar sem aukin skilvirkni og aðrar innri aðgerðir væru ekki síður mikilvæg en aukning hlutafjár. Hann lagði einnig áherslu á að með styrkingu bankans þyrfti jafnframt að efla starf hans á sviði kynjajafnréttis.

Aukin samhæfing þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar var einnig til umræðu og hlutverk bankans í því samhengi. Ljóst er að samstarf Alþjóðabankans og Sameinuðu þjóðanna hefur aukist umtalsvert á síðastliðnum misserum, enda kallar breytt landslag á breytta starfshætti og aukna samvinnu allra aðila sem starfa á þessum vettvangi. Í því samhengi lagði utanríkisráðherra áherslu á mikilvægi þess að Alþjóðabankinn nýtti skilgreinda styrkleika sína, s.s. sérfræðiþekkingu, rannsóknar- og greiningarvinnu og vogarafl hans til að koma mörgum aðilum að borðinu. Þá væri lykilatriði væri að vinna að uppbyggingu viðnámsþróttar og að koma í veg fyrir neyð.

Í lok fundar bauð Guðlaugur Þór forseta bankans og ráðherrum kjördæmisríkjanna til fundar á Íslandi að ári, en Norðurlöndin skiptast á að halda hinn árlega samráðsfund.

Alþjóðabankinn er ein af fjórum áherslustofnunum í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn