Hoppa yfir valmynd
9. júní 2017 Innviðaráðuneytið

Ísland fullgildir viðbótarbókun um sjálfsstjórn sveitarfélaga

Viðbótarbókun við Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga um rétt íbúa til þátttöku í málefnum sveitarstjórna hefur verið fullgilt af Íslands hálfu. Fullgildingin hefur verið tilkynnt Evrópuráðinu og gengur í gildi 1. september 2017.

Viðbótarbókunin felur í sér að aðildarríkin skulu tryggja íbúum slíkan rétt til þátttöku sem vísar til réttar þeirra til að ákvarða eða hafa áhrif á hvernig sveitastjórnir beita valdi sínu og ábyrgð. Er þar m.a. átt við rétt íbúa til þátttöku í sveitarstjórnarkosningum sem kjósendur eða frambjóðendur. Þá skulu aðildarríki gera hverjar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að framfylgja þessum rétti, þar á meðal að festa í sessi ferli til að virkja almenning, svo sem með samráðsferli og íbúakosningum, tryggja aðgang að opinberum gögnum, gera ráðstafanir til að koma til móts við sérþarfahópa, tryggja ferla til að meðhöndla og bregðast við kvörtunum og hvetja til notkunar á upplýsinga- og samskiptatækni í þessu sambandi.

Við undirbúning frumvarps núgildandi sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, var meðal annars höfð hliðsjón af efni þessarar viðbótarbókunar og má í því sambandi m.a. vísa til ákvæða X. kafla laganna þar sem fjallað er um samráð við íbúa.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum