Hoppa yfir valmynd
Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skýrsla starfshóps um kosti og galla aðskilnaðar viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi

Hinn 9. mars 2017 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp sem fékk það hlutverk að skoða kosti og galla þess að aðskilja viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi. Var starfshópnum falið að skoða erlenda löggjöf um aðskilnað eða takmörkun á viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi, leggja mat á kosti og galla slíkrar löggjafar fyrir fjármálamarkað hér á landi og hvort aðrar leiðir séu færar eða betur til þess fallnar að takmarka áhættu af fjárfestingarbankastarfsemi alhliða banka. Starfshópurinn var skipaður sérfræðingum frá ráðuneytinu, Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands. Starfshópurinn hefur nú afhent fjármála- og efnahagsráðherra skýrsluna.

„Ég er mjög ánægður með vinnu starfshópsins. Skýrslan dregur fram mikilvægt efni um flókið málefni og hún mun dýpka umræðuna um þessi mál,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra.

„Það er mikilvægt að hafa í huga þær miklu breytingar sem hafa orðið á fjármálakerfinu frá hruni. Mér heyrist á pólitískum umræðum að samhljómur sé um að við eigum að leiða til lykta spurninguna um hvernig samspili fjárfestingabanka- og viðskiptabankastarfsemi verði háttað og í kjölfar þessarar vinnu mun ég skipa nefnd sem mun kanna hvort þörf er á breytingum á lagaumhverfinu og eftir atvikum gera þá tillögu um slíkar breytingar,“ segir Benedikt.

Helstu efnisatriði skýrslunnar

Margvíslegar lagabreytingar hafa verið gerðar undanfarin ár er varða fjármálamarkaðinn og fjárfestingarbankastarfsemi fjármálafyrirtækja hér á landi. Breytingarnar miða meðal annars að því að minnka áhættu af starfsemi fjármálafyrirtækja, þar á meðal fjárfestingarbankastarfsemi.

Engin einhlít skilgreining er til um það hvað fellur undir viðskiptabankastarfsemi eða fjárfestingarbankastarfsemi fjármálafyrirtækja og hvar mörkin þar á milli liggja. Undir viðskiptabankastarfsemi mætti þó fella viðtöku og geymslu innlána, greiðsluþjónustu og útlánastarfsemi til einstaklinga og undir fjárfestingarbankastarfsemi mætti a.m.k. fella eigin viðskipti (stöðutökur) fjármálafyrirtækjanna og tengsl við ýmsar tegundir sérhæfðra sjóða.

Samspil viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi í starfsemi alhliða banka er að ýmsu leyti hagfelld fyrir banka, efnahagskerfið og viðskiptavini þeirra. Fjölbreytni í starfsemi getur aukið stöðugleika banka, gert þá hagkvæmari í rekstri og veitir viðskiptavinum fjölþættari þjónustu. Á móti koma rök um að samrekstur geti valdið víxláhættu og freistnivanda. Hömlur á fjárfestingabankastarfsemi í alhliða bönkum geta ýtt undir vöxt skuggabankastarfsemi sem er minna útsett fyrir opinberu eftirliti.

Þar sem engin einhlít skilgreining er til á fjárfestingabankastarfsemi er engin algild aðferð til við mat á umfangi hennar. Í skýrslunni eru nokkrar aðferðir notaðar til þess að áætla umfang fjárfestingarbankastarfsemi viðskiptabankanna hér á landi. Samkvæmt þeirri nálgun sem beitt er í skýrslunni er umfang fjárfestingabankastarfsemi að meðaltali um 5% af eignum en þá er horft framhjá skuldabréfum með ábyrgð ríkissjóðs. Hlutfallið reiknað af tekjum er nokkuð hærra að meðaltali, eða um 13% ef miðað er við síðasta ár.

Síðasta áratuginn hefur umgjörð fjármálastarfsemi tekið miklum breytingum. Þar má nefna auknar skyldur og ábyrgð stjórnenda fjármálafyrirtækja, ýmsar breytingar á starfsumhverfi áhættustýringar, bann við lánveitingum með veði í eigin hlutabréfum, takmarkanir á lánveitingum til tengdra aðila, strangari reglur um kaupaukagreiðslur til starfsmanna fjármálafyrirtækja, hertari reglur um eignarhluti í óskyldum rekstri, styrkari löggjöf um stórar áhættuskuldbindingar, hærri stjórnvaldssektir vegna brota í starfsemi fjármálafyrirtækja, skorður á skuldsetningu fjármálafyrirtækja, og sérstakar kröfur um laust fé. Þá taka eiginfjárkröfur nú til mun fleiri þátta en áður, meðal annars hvort fjárfestingabankastarfsemi er stunduð og hversu kerfislega mikilvægur bankinn er. Von er á tillögum að frekari umbótum á næstunni, meðal annars með framlagningu frumvarps til laga um viðbúnað og skilameðferð fjármálafyrirtækja.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 var meðal annars fjallað um fjárfestingarbankastarfsemi íslensku fjármálafyrirtækjanna á árunum fyrir fall þeirra. Í skýrslunni var gagnrýnt að ekki voru lagðar sérstakar eiginfjárkröfur á fjárfestingarbankastarfsemi gömlu viðskiptabankanna þriggja á árunum fyrir fall þeirra haustið 2008. Með lagabreytingum síðustu ára hafa verið gerðar úrbætur sem svara þessari gagnrýni að verulegu leyti og frekari umbætur eru væntanlegar með framlagningu frumvarps til laga um viðbúnað og skilameðferð fjármálafyrirtækja sem miða að því að draga úr áhættu almennings og ríkissjóðs af falli fjármálafyrirtækja.

Helstu fyrirmyndir að lagabreytingum sem miða að kerfisbreytingum á starfsumhverfi fjármálafyrirtækja eru frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi og Belgíu. Þá er reglugerð í vinnslu á vettvangi Evrópusambandsins um sama efni. Í skýrslunni eru helstu þættir þessara laga og reglna skoðaðir og bornir saman. Einnig er fjallað um markmið slíkra lagabreytinga og undirliggjandi sjónarmið að því er varðar kosti og galla. Löggjöf flestra landanna tekur einungis til stærstu fjármálafyrirtækjanna í hverju landi. Innbyrðis eru útfærslurnar mjög mismunandi. Í öðrum löndum Evrópu, þ.m.t. öllum Norðurlöndunum, hefur ekki þótt ástæða til að setja takmarkanir á þessa starfsemi umfram það sem regluverk Evrópusambandsins gerir ráð fyrir.

Þrjár mögulegar leiðir

Í skýrslunni er fjallað um þá grundvallarspurningu hvort þörf sé á frekari kerfisbreytingum hér á landi, einkum hvort í því felist ábati umfram kostnað að aðskilja fjárfestingarbankastarfsemi frá viðskiptabankastarfsemi fjármálafyrirtækja hér á landi. Þrjár meginleiðir eru skoðaðar sem gætu komið til greina í þessum efnum. 

  1. Starfsumhverfi fjármálafyrirtækja hér á landi byggi á þeim kerfisumbótum sem nú þegar hafa átt sér stað eftir fjármálahrunið 2008 eða eru nú þegar í þróun.
  2. Kerfisbreyting sem felur í sér að viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi verði aðskilin (bannregla) í samræmi við erlendar fyrirmyndir.
  3. Fjárfestingarbankastarfsemi innan alhliða banka áfram heimiluð, að því gefnu að hún verði innan skilgreindra hlutfalla og að áhættu sem af henni stafar verði mætt með fullnægjandi hætti.

Í skýrslunni er að finna lýsingu á hvernig þessar þrjár leiðir mætti útfæra ásamt því að kostum og göllum þessara leiða er lýst nánar.

Kostir og gallar við aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi: Skýrsla starfshóps (pdf)

Upplýsingaefni vegna kynningar á skýrslu um aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi (pdf)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira