Hoppa yfir valmynd
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Endurskoðuð fráveitureglugerð send út til umsagnar

Gvendarbrunnar - myndLjósmynd:Magnus Fröderberg/norden.org

Nefnd um endurskoðun reglugerðar um fráveitur og skólp hefur skilað tillögum að breyttri reglugerð til ráðherra ásamt greinargerð. Nefndin leggur til ýmsar breytingar sem eru ætlaðar til að einfalda ákvæði reglugerðarinnar og gera hana skýrari.

Í greinargerð nefndarinnar segir að stefnt sé að því að endurskoðuð reglugerð verði öflugt tæki til þess að vernda vatnsgæði og lífríki á losunarsvæðum fráveitna, auka líftíma fráveitna og efla heilsufar íbúa.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur ákveðið að setja tillögur nefndarinnar í almennt umsagnarferli. Frestur til að skila athugasemdum er til 18. ágúst 2017 og má senda þær á netfangið [email protected] eða í bréfpósti, á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík. Að athugasemdum fengnum mun ráðuneytið fara yfir þær og tillögur nefndarinnar og er stefnt að því að ný reglugerð geti verið sett í haust.

Í nefndinni áttu sæti fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi, Umhverfisstofnun og Samorku, auk umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Breyttar aðstæður og lagaumhverfi hafa leitt til þess að breytingar á reglugerðinni eru orðnar tímabærar. Sett er fram meginregla um hreinsun skólps með tölulegum viðmiðum og tvær undantekningar eru frá þeirri reglu, varðandi viðkvæm og síður viðkvæm svæði. Sett eru viðmið um hvernig flokka eigi svæði sem viðkvæm eða síður viðkvæm. Ákvæði eru um rafræna skrá um fráveitur, sem er ætlað að bæta upplýsingar og einfalda upplýsingagjöf.

Endurskoðun reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp - greinargerð (pdf-skjal)

Tillaga fráveitunefndar að reglugerð um fráveitur og skólp (word-skjal)


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira