Hoppa yfir valmynd
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Ferðamálaráði falið að gera tillögur um viðbrögð við þremur áskorunum í ferðaþjónustu

Frá Reykjavík - myndHugi Ólafsson

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála hefur í dag óskað eftir því við ferðamálaráð að ráðið geri tillögur um aðgerðir af hálfu stjórnvalda til að bregðast við þremur áskorunum sem ætla má að raski samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu um þessar mundir. 

Áskoranirnar, og verkefnin sem ráðherra felur ferðamálaráði varðandi hverja og eina þeirra, eru eftirfarandi:

1. Möguleg misnotkun og/eða óeðlilegt samkeppnisforskot í deilihagkerfinu á markaði fyrir gistingu

  • gerðar verði tillögur um aðgerðir til að hindra svarta atvinnustarfsemi í gistiþjónustu í deilihagkerfinu
  • metið verði hvort, og þá á hvaða hátt, lögleg en umsvifamikil starfsemi á þessu sviði hafi óeðlilegt samkeppnisforskot gagnvart hefðbundinni gistiþjónustu hvað varðar lagalegt umhverfi

2. Möguleg ólögmæt starfsemi og/eða óeðlilegt samkeppnisforskot erlendra aðila sem stunda ferðaþjónustu hér á landi, til að mynda fólksflutninga og leiðsögn

  • gerðar verði tillögur um aðgerðir til að tryggja betur en þegar er gert að þessir aðilar fullnægi öllum kröfum sem þeim ber, m.a. varðandi vinnurétt, gjöld, skráningu o.þ.h.
  • metið verði hvort og þá með hvaða hætti þessir aðilar hafi óeðlilegt samkeppnisforskot gagnvart innlendum aðilum og hvort tilefni sé til að breyta lögum eða reglum til að koma í veg fyrir slíkt forskot
  • metið verði hvort tilefni sé til að stemma stigu við þesari starfsemi með einhverjum öðrum hætti, til dæmis með því að gera auknar kröfur til þessarar atvinnustarfsemi

3. Verðlagsþróun í erlendri mynt sem gera má ráð fyrir að komi verst niður á ferðaþjónustu á landsbyggðinni

  • gerðar verði tillögur um til hvaða aðgerða stjórnvöld geti gripið til að stuðla að því að ferðamenn heimsæki landsbyggðina í auknum mæli, til dæmis með samgöngubótum, markaðs- og kynningarstarfi, jöfnun aðstöðumunar með einhverjum hætti, eða öðrum aðgerðum

Verkefnið er nánar skilgreint í bréfi ráðherra til ferðamálaráðs.

Tekið er fram í erindinu að æskilegt sé að tillögurnar séu útfærðar (þ.e. ekki of almennar) og að þær beinist að aðgerðum sem raunhæft er að ráðast í án mikillar tafar.

Við það er miðað að svör berist ekki síðar en fyrir lok ágústmánaðar.

  • Bréf ráðherra til ferðamálaráðs

Ferðamálaráð hefur það hlutverk skv. 6. gr. laga um skipan ferðamála að vera ráðherra til ráðgjafar um áætlanir í ferðamálum og skal veita umsagnir um breytingar á lögum og reglum er varða ferðamál og annað sem ráðherra felur því eða ráðið telur ástæðu til að taka upp í þágu ferðaþjónustunnar.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira