Forsætisráðuneytið

Ríkisstjórnin styður menningarkynningu í tengslum við EM kvenna

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun, að tillögu forsætisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra, að verja 6 millj. kr. af ráðstöfunarfé ríkisstjórnar til menningarkynningar í tengslum við Evrópumót kvenna í knattspyrnu sem fram fer í Hollandi dagana 16. júlí til 6. ágúst næstkomandi. Ísland tekur þátt í keppninni í þriðja sinn en liðið mun leika í C-riðli með Frakklandi, Austurríki og Sviss. 

Fyrirhugað er að mennta- og menningarmálaráðuneyti, ásamt ÚTÓN, útflutningsstofu íslenskrar tónlistar, Íslandsstofu og utanríkisráðuneyti, standi fyrir menningartilburði í Tilburg þar sem áhersla verði lögð á tónlist og tónlistarkonur frá Íslandi. 

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, sagði af þessu tilefni: Það verður spennandi að fylgjast með íslenska kvennalandsliðinu á EM í Hollandi í sumar. Um leið gefst ánægjulegt tækifæri til að beina sjónum umheimsins að Íslandi og íslenskri menningu en knattspyrnufólkið okkar hefur sýnt sig vera frábærir fulltrúar fyrir land og þjóð.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn