Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2017 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra sótti ráðherrafund í Tallinn

Sigríður Á. Andersen heilsar Andres Anvelt, innanríkisráðherra Eistlands. - myndEU2017EE Estonian Presidency

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sótti í vikunni óformlegan fund dómsmála- og innanríkisráðherra Evrópusambandsríkja og ríkja í Schengen-samstarfinu. Á fundinum voru öryggismál og ferðir flóttamanna við Miðjarðarhaf til umræðu. Fundurinn fór fram í höfuðborg Eistlands, Tallinn, en Eistland tók nýverið við formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins af Möltu og stýrði því fundinum. 

Undir umræðum um útlendingamál var sérstaklega farið yfir ástandið við Miðjarðarhaf og endursendingar útlendinga í ólögmætri dvöl til heimalanda sinna. Ástandið við Miðjarðarhaf hefur lengi verið viðkvæmt en vegna mikillar aukningar á umferð útlendinga yfir hafið til Ítalíu hafa stjórnvöld þar óskað eftir frekari aðstoð frá aðildarríkjum ESB, framkvæmdastjórn ESB og Evrópsku landamærastofnuninni (Frontex).

Framkvæmdastjórn ESB birti sérstaka aðgerðaráætlun 4. júlí síðastliðinn sem kynnt var fyrir ráðherrunum á fundinum og hlaut hún almennan stuðning þeirra, sjá hér. Umræður um áætlunina og einstakar aðgerðir halda áfram á næstu vikum en stefnt er að því að ná sýnilegum árangri hið fyrsta.

Á fundinum var jafnframt lýst yfir stuðningi við Ítalíu og vilja til að leita leiða til að takast á við fyrirliggjandi aðstæður. Horfa þurfi heildstætt á ástandið og huga bæði að innri og ytri þáttum útlendinga- og hælismála, m.a. með aukinni samvinnu Evrópuríkja og aðstoð við nágrannaríki.

Dómsmála- og innanríkisráðherrar ESB og Schengen-ríkjanna.
Dómsmála- og innanríkisráðherrar ESB og Schengen-ríkjanna.
(EU2017EE Estonian Presidency)

Ráðherrarnir sammæltust einnig um nauðsyn þess að vinna að meiri skilvirkni við endursendingar útlendinga í ólögmætri dvöl á Schengen-svæðinu. Á það einnig við um framkvæmd Evrópuríkja á endursendingum en þörf er á aðgerðum, m.a. til að tryggja að ákvörðun um endursendingu verði hrint í framkvæmd eins fljótt og auðið er eftir að hún liggur fyrir. Þá voru ráðherrarnir einnig sammála um að huga þyrfti betur að tengslum milli hælismála og endursendinga en málaflokkarnir þurfi heildstæðrar nálgunar við og skilvirkni í framkvæmd.

Á fundinum ítrekuðu ráðherrarnir einnig stuðning sinn við verkefni um rekstrarsamhæfi upplýsingakerfa í Evrópu sem hefur verið til meðferðar undanfarin misseri ásamt mikilvægi þess að persónuvernd og vernd grundvallarréttinda einstaklinga verði höfð að leiðarljósi við áframhaldandi vinnu. Málið var einnig rætt á fundi ráðherranna í júní síðastliðnum en þar voru samþykkt áform um næstu skref, sjá hér

Sjá fréttatilkynningu frá formennsku Eistlands í ráðherraráðinu um framangreindar umræður. Þess ber þó að geta að sumir dagskrárliðir fundarins teljast ekki að öllu leyti varða þróun Schengen-samstarfsins en einstakir þættir lúta þó að samstarfinu og varða því Ísland.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum