Hoppa yfir valmynd
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Kynning á frumvörpum um lög um Matvælastofnun, matvæli og um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.


Á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafa verið samin drög að tveim frumvörpum, annars vegar til laga um Matvælastofnun og hins vegar til breytingar á lögum nr. 93/1995, um matvæli og lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.


Lagasmíð þessi er í framhaldi af vinnu sem fram hefur farið í ráðuneytinu eftir að skýrsla um starfsemi Matvælastofnunar kom út fyrr á þessu ári og lögð var fyrir Alþingi.


Sú leið var farin að semja stutt og einföld lagafyrirmæli um hlutverk Matvælastofnunar og skipulag samfara því sem gerðar eru tillögur um breytingar á matvælalögunum.


Megin tilgangurinn er að bæta upplýsingagjöf til neytenda og skerpa á samræmingu í skráningu og birtingu upplýsinga úr matvælaeftirliti, m.a. með því að eftirlitsaðilar skuli með samræmdum hætti flokka fyrirtæki eftir frammistöðu þeirra samkvæmt niðurstöðum úr eftirliti og birta þær niðurstöður opinberlega að loknum aðlögunartíma.


Helstu nýmælin hvað varðar lög um Matvælastofnun felast í ákvæðum um samstarfsráð með fulltúum þeirra sem starf hennar varðar einkum, og þá er lagt til að útvíkka heimildir til að semja við þar til bæra aðila um að taka að sér tiltekin, afmörkuð verkefni við eftirlit, en slíkar heimildir eru þegar í lögum um matvæli, fóður, áburð og sáðvöru og um lífræna ræktun.


Breytingar á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr varða einungis skipulag og innra starf Matvælastofnunar, en þau lög eru nú til heildarendurskoðunar á öðrum vettvangi.


Ráðuneytið leggur frumvörpin fram til kynningar og óskar eftir athugasemdum ([email protected]) fyrir 15. ágúst 2017.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira