Hoppa yfir valmynd
19. júlí 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samráð um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um markaðar tekjur

Samráð um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um markaðar tekjur - myndMynd/Hugi Ólafsson

Í samræmi við 3. gr. samþykktar ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna leggur fjármála- og efnahagsráðuneytið fram til kynningar fyrir almenning áform um lagasetningu, sem felur í sér breytingar á lagaákvæðum um markaðar tekjur. Líkt og kveðið er á um í samþykkt ríkisstjórnarinnar eru áformin sett fram á stöðluðu eyðublaði forsætisráðuneytisins þar sem stuttlega eru útlistuð úrlausnarefni, markmið og helstu leiðir. 

Stefna stjórnvalda hefur lengi verið að draga úr vægi eða afnema með öllu markaðar ríkistekjur. Með lögum nr. 123/2015, um opinber fjármál (LOF), voru gerðar nokkrar breytingar sem snerta framsetningu og meðferð tekna bæði hjá ríkissjóði í heild og einstökum aðilum í A-hluta ríkissjóðs. Sér í lagi að því er varðar markaðar tekjur, sem eru skatttekjur sem eiga að renna til ákveðinna verkefna eða rekstraraðila samkvæmt sérlögum, án þess að á móti komi sérgreind þjónusta til gjaldenda, í daglegu tali hefur gjarnan verið rætt um eyrnamerkingu tekna í þessu sambandi. Af framangreindum breytingum leiðir að afnema þarf mörkun ýmissa tekna í gildandi lögum sem ekki teljast til rekstrartekna. 

Gert er ráð fyrir því, í samræmi við ákvæði LOF, að fjármálaáætlun og fjárlög fyrir 2018 muni kveða á um að allar markaðar tekjur renni í ríkissjóð og því er stefnt að framlagningu frumvarps við þingsetningu 12. september nk. Frumvarpsdrögin sem eru í vinnslu eru í stórum dráttum samhljóða frumvarpi sem lagt var fram af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar á 143. löggjafarþingi árið 2014 og bárust við meðferð þess allmargar umsagnir sem horft verður til við undirbúning lagafrumvarpsins.

Nái frumvarpið fram að ganga munu breytingarnar ná til rúmlega 50 lagaákvæða í um 40 lagabálkum. Gengið er út frá því að lagasetningin muni hafa talsverð áhrif til einföldunar á reikningsuppgjör stofnana og ríkisins í heild. 

Rökstuddar ábendingar og/eða athugasemdir óskast sendar á netfangið [email protected] fyrir 4. ágúst 2017.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum