Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Hæstiréttur eyðir óvissu um skipan Landsréttar

Hæstiréttur Íslands - mynd

Með úrskurði héraðsdóms 12. júní síðastliðinn var vísað frá dómi ógildingarkröfu Ástráðs Haraldssonar og Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar um að ógilt verði sú ákvörðun dómsmálaráðherra að leggja ekki til að þeir yrðu skipaðir í stöðu dómara við Landsrétt á þeim grundvelli að ekki yrði séð að úrlausn kröfunnar myndi leiða til afgerandi niðurstöðu um sakarefni málsins. Þá var kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu íslenska ríkisins vísað frá dómi á þeim grundvelli að ekki hefði verið sýnt fram á tjón Ástráðs og Jóhannesar vegna athafna ráðherra.

Í dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp í gær, 31. júlí, var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að vísa ógildingarkröfu Ástráðs og Jóhannesar Rúnars frá dómi. Taldi Hæstiréttur að þeir hefðu ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni að fá með dómi úr skorið um gildi ákvarðana dómsmálaráðherra.

Af þessari niðurstöðu leiðir að skipun Landsréttar mun í öllu falli standa óhögguð. Allri óvissu um skipan og samsetningu Landsréttar hefur því verið bægt frá. Breytir í því sambandi engu þótt skaðabóta- og miskakröfur stefnenda muni fá efnisúrlausn.

Hvað viðurkenningarkröfu Ástráðs og Jóhannesar Rúnars varðar kemst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að nægar líkur hafi verið leiddar að því að þeir kunni að hafa orðið fyrir fjártjóni, verði komist að þeirri niðurstöðu að athafnir dómsmálaráðherra hafi verið ólögmætar. Tekur Hæstiréttur fram að Ástráður og Jóhannes Rúnar hafi ekki lagt fram ítarleg gögn um ætlað fjártjón sitt, en að mögulega geti þeir bætt úr málatilbúnaði sínum undir rekstri málsins. Er því lagt fyrir héraðsdóm að leggja efnisdóm á skaðabótakröfu þeirra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira