Hoppa yfir valmynd
Félagsmálaráðuneytið

Yfirlýsing félags- og jafnréttismálaráðherra vegna ummæla formanns Hugarafls

Í tilefni af ummælum Málfríðar Hrundar Einarsdóttur, formanns Hugarafls, sem birtust í Morgunblaðinu í dag hefur félags- og jafnréttismálaráðherra sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu: Nauðsynlegt er að koma því á framfæri að um málefni Hugarafls hefur tvívegis verið fundað í velferðarráðuneytinu með fulltrúum Hugarafls. Á fundunum hafa setið aðstoðarmenn bæði félags- og jafnréttismálaráðherra og heilbrigðisráðherra og embættismenn. Nýverið samþykkti formaður Hugarafls boð félags- og jafnréttismálaráðherra um fund með honum um málefni Hugarafls. Í því ljósi er sérstakt að formaður Hugarafls láti hafa eftir sér ummæli þess efnis að ráðherra vilji ekki funda með henni. Hugarafl hefur fram til þessa ekki fengið framlög af hálfu félagsmálaráðherra, en hins vegar hefur undanfarið verið lögð vinna í það af hálfu ráðuneytisins að kanna hvort rétt væri að það kæmi að stuðningi við Hugarafl og þá með hvaða hætti. Formaður Hugarafls hefur verið upplýstur um að málið sé til skoðunar af hálfu ráðuneytisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira