Velferðarráðuneytið

Guðrún Ingvarsdóttir stýrir innleiðingu aðgerðaáætlunar í húsnæðismálum

Guðrún Ingvarsdóttir - mynd

Velferðarráðuneytið hefur fengið Guðrúnu Ingvarsdóttur til að stýra innleiðingu aðgerðaáætlunar stjórnvalda í húsnæðismálum samkvæmt sérstökum húsnæðissáttmála sem kynntur var nýlega.

Guðrún hefur víðtæka reynslu af bygginga- og húsnæðismálum en hún kemur til starfa frá Búseta þar sem hún starfaði um árabil sem forstöðumaður þróunar og nýframkvæmda. Hún hefur jafnframt komið að ýmissi hagsmuna- og greiningarvinnu innan málaflokksins hérlendis og á norrænum vettvangi og sinnt verkefnum sem varða hönnun og hönnunarstýringu við skipulags- og mannvirkjagerð.

Guðrún er með M.Sc. próf í Stjórnun og stefnumótun frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands en lokaverkefni hennar þar fjallaði um umbætur í samkeppnishæfni íslensks byggingariðnaðar. Þá er hún með M.Sc. gráðu í arkitektúr og löggildingu sem arkitekt.

Húsnæðissáttmálinn var unninn af aðgerðahópi ráðherra félags- og húsnæðismála, umhverfis- og auðlindamála, fjármála- og efnahagsmála og sveitarstjórnarmála auk þriggja aðila frá samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Aðgerðirnar sem settar eru fram í sáttmálanum eru bæði almennar og sértækar og miða að því að fyrirbyggja aðstæður sem skapað geta viðlíka vanda og nú er á húsnæðismarkaðinum, finna leiðir til að ná sem fyrst jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu og fjölga leiðum til fjármögnunar á eigin húsnæði.

Aðgerðirnar verða endurskoðaðar reglulega með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni og kunna því að taka breytingum ef þörf krefur.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn