Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Biophilia menntaverkefnið kynnt kennurum á fimm námskeiðum víðs vegar um landið

Þátttakendur á Biophiliu kennaranámskeiði - mynd

Námskeið fyrir kennara um aðferðafræði Biophiliu menntaverkefnisins og þær fjölbreyttu leiðir sem nýta má í skólastarfi var haldið á Ísafirði 15. ágúst síðastliðinn. Þegar hafa verin haldin námskeið á Reyðarfirði og Selfossi, en næstu námskeið verða á Akureyri í september og fyrir nágrannasveitafélög Reykjavíkur síðar í haust.

Biophiliu menntaverkefnið var eitt stærsta framlag mennta- og menningarmálaráðuneytisins til formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni 2014. Verkefnið var upphaflega til þriggja ára en var framlengt til ársins 2017 vegna eftirspurnar og áhuga.

Frá árinu 2011 hafa kennarar og skólar í Reykjavík og síðar á Norðurlöndunum tekið virkan þátt í að þróa og kenna verkefnið sem byggt er á samnefndu listaverki Bjarkar Guðmundsdóttur. Markmiðið með Biophilia menntaverkefninu er að kenna börnum á skapandi hátt um tónlist og náttúruvísindi með aðstoð tækni og þverfaglegra kennsluhátta.

Mennta- og meningarmálaráðherra ákvað við lok norræna Biophiliu verkefnisins að kynna það markvisst fyrir skólum á landsbyggðinni með það að leiðarljósi að kennarar um allt land hafi sömu tækifæri til þess að tileinka sér þverfaglegar kennsluaðferðir Biophiliu og kollegar þeirra á Norðurlöndunum.

Skólar í Reykjavík hafa kennt Biophiliu um nokkurra ára skeið og í ljósi þeirrar reynslu gerði ráðuneytið samstarfssamning við skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar um skipulagningu og framkvæmd námskeiðanna.

Mennta- og menningarmálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson, sat námskeiðið sem haldið var á Ísafirði og tók þátt í sýnikennslu og umræðum. Kennarar ræddu m.a. um mikilvægi þess að nálgast viðfangsefnin út frá breiðum grunni og hvernig ólíkar greinar geta notið góðs af þverfaglegri kennslu en inntakið í Biophiliu menntaverkefninu er einmitt þverfagleg nálgun og samkennsla. Þessi nálgun hefur m.a. leitt það af sér hjá sumum þátttökuskólunum að stundataflan hefur verið brotin upp og henni breytt til þess að gefa samkennslu meira rými í skólastarfinu.

Ráðherra sagði við þetta tækifæri: „Það hefur sýnt sig að Biophilia menntaverkefnið hefur haft jákvæð áhrif á kennsluaðferðir. Verkefnið hefur gagnast sérstaklega vel fyrir kennara sem vilja tileinka sér þverfaglega og skapandi kennsluhætti og takast á við nýjar áskoranir í skólastarfinu. Námskeiðið á Ísafirði veitti mér innsýn í nýja hugsun þar sem tækni, náttúru og tónlist er blandað saman og úr verður spennandi nálgun fyrir nemendur.“

Úttekt um norræna verkefnið má nálgast hér.

  • $alt
  • $alt

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum