Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2017 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Breiðum samstarfsvettvangi komið á til þess að stuðla að farsælli framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar

Menntun fyrir alla á Íslandi - mynd

Fjölmenni var á málþinginu „Menntun fyrir alla á Íslandi“ sem mennta- og menningarmálaráðuneytið stóð fyrir 24. ágúst síðastliðinn og fjallaði um framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar. Á málþinginu voru niðurstöður úttektar Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir teknar til umfjöllunar og umræðu, ásamt hugmyndum um aðgerðir. Ráðherrar heilbrigðismála, félags- og velferðarmála, auk mennta- og menningarmálaráðherra, ávörpuðu málþingið ásamt fulltrúum Evrópumiðstöðvarinnar og fulltrúum helstu hagsmunaaðila.

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði við þetta tækifæri: „Mér finnst afar mikilvægt - nú þegar búið er að kortleggja ítarlega stöðuna hér á landi og setja fram tillögur til úrbóta til lengri og skemmri tíma - að allir leitist við að sjá tækifærin til umbóta í þágu menntunar æsku þessa lands og leiti lausna til að bæta menntakerfið enn frekar.“

Árið 2016 var gerð umfangsmikil úttekt á framkvæmd stefnunnar um menntun án aðgreiningar á Íslandi á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi á vegum Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir. Ástæður þess að ráðist var í úttektina má m.a. rekja til þess að þrátt fyrir að stefna um menntun án aðgreiningar hafi verið leiðarljós í menntastefnu hér á landi allt frá 1996 hefur innleiðing stefnunnar í daglegt skólastarf ekki verið talin fullnægjandi.

Í úttektinni komu fram athyglisverðar niðurstöður, t.d. að núverandi löggjöf og stefnumótun felur í sér stuðning við markmið og áherslur skólakerfis án aðgreiningar. Samstaða er um þessi markmið og áherslur meðal flestra þeirra sem sinna menntamálum á öllum stigum skólakerfisins. Af öðrum niðurstöðum má nefna að nokkuð er um að fólk hafi ólíkar skilgreiningar á hugtakinu menntun án aðgreiningar. Þá kom fram að megin þorri þeirra sem sinna menntamálum, á hvaða skólastigi sem starfa, telja núverandi tilhögun fjárveitinga og reglur um ráðstöfun fjár hvorki taka mið af jafnræðissjónarmiðum né hugmyndum um skilvirkni. Auk þess efast margir starfsmenn skóla um að grunnmenntun þeirra og/eða tækifæri til faglegrar starfsþróunar nýtist sem skyldi til undirbúnings fyrir skólastarf án aðgreiningar.

Í úttektinni voru sett fram þrjú forgangsverkefni sem nauðsynleg eru til framtíðaruppbyggingar á þessu sviði:

- Að efna til víðtækrar umræðu meðal þeirra sem vinna að menntamálum, í öllum sveitarfélögum, skólum og skólastigum, um hvernig best verði staðið að menntun án aðgreiningar.
- Að ráðast í athugun og endurskoðun á núverandi reglum um ráðstöfun fjármuna með aukinn árangur og meiri hagkvæmni að leiðarljósi.
- Að efna til umræðu með það að markmiði að ná samkomulagi um lágmarksviðmið um veitta þjónustu sem styðja við menntun án aðgreiningar í öllum skólum.

Þessi verkefni eru talin vænlegasta leiðin til að stuðla að víðtækum kerfisbreytingum. Tilgangur málþingsins var öðru fremur að leggja áherslu á fyrsta verkefnið, þ.e. að efna til samtals meðal þeirra sem vinna að menntamálum og taka fyrsta skrefið í átt að því að ná samkomulagi um merkingu hugtaksins.

Á málþinginu greindi Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, frá tillögum stýrihóps með eftirfylgni úttektarinnar um aðgerðir sem þykir nauðsynlegt að ráðast í til að fylgja eftir niðurstöðum hennar. Meðal þeirra eru að greina nánar helstu verkefni ríkis og sveitarfélaga og gera tillögur um aukið samstarf þar sem það á við, styðja stjórnendur og starfsfólk við að innleiða starfshætti lærdómssamfélags í öllum skólum, gera úttekt á núverandi fjárveitingareglum á skólastigunum þremur og leggja fram tillögur sem eiga að auka skilvirkni, jafnræði og miða að því að fjárveitingar styðji betur við framkvæmd stefnunnar. Einnig að sett verði lágmarksviðmið um þjónustu og kannað hvernig grunnmenntun kennara og fagleg starfsþróun skuli grundvallast á stefnunni svo allir geti tileinkað sér árangursríka starfshætti.

Í kjölfar úttektarinnar undirrituðu allir helstu hagsmunaaðilar skólasamfélagsins samstarfsyfirlýsingu um eftirfylgni með úttektinni en auk mennta- og menningarmálaráðherra voru það heilbrigðisráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra og fulltrúar frá Kennarasambandi Íslands, Heimili og skóla, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Skólameistarafélags Íslands. Það má teljast líklegt að það sé í fyrsta sinn sem slík samstarfsyfirlýsing er undirrituð með öllum þessum aðilum á sviði menntamála hér á landi og ánægjuefni að fyrsta skrefið hafi verið tekið á málþinginu í átt að frekari samvinnu um farsæla framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar.

Nálgast má upptökur af málþinginu og frekari upplýsingar um úttektina hér.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira