Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2017 Innviðaráðuneytið

Ráðstefna flugmálastjórna Evrópu haldin í Reykjavík

Jón Gunnarsson flutti ávarp við setningu ráðstefnunnar í morgun. - mynd

Nú stendur yfir í Reykjavík ráðstefna flugmálastjórna Evrópu þar sem fjallað er um flugöryggismál og þróun á evrópsku og alþjóðlegu regluverki í flugi. Fundurinn stendur til laugardags.

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra flutti ávarp við setningu ráðstefnunnar og fjallaði hann einkum um þróun í flugrekstri á Íslandi sem hann sagði að væri einn af hornsteinum íslensks atvinnulífs. Það væri ekki aðeins vegna ferðaþjónustunnar heldur þess hversu þýðingarmikið flugið væri í verslun og viðskiptum. Hérlendis hefði flug hefði þróast snemma og þannig tengt Ísland umheiminum. Hann sagði mörg erlend flugfélög nú stunda áætlunarflug til landsins og að í ár væri búist við um 8,5 milljónum farþega um Keflavíkurflugvöll. Af þeim myndu kringum tvær milljónir heimsækja landið.

Ráðherra sagði sterkan atvinnuveg sem flugið þannig vera lykilatriði í hagvexti og grósku. Um 98% erlendra ferðamanna sem koma til Íslands ferðast með flugi og ráðherra minnti einnig á hversu Ísland væri mikilvæg tenging fyrir flug milli Evrópu og Ameríku. Einnig vék ráðherra að þeirri miklu uppbyggingu sem framundan væri á Keflavíkurflugvelli og þeim verkefnum sem tengdust hinum öra vexti í flugi og hlutverki stjórnvalda á því sviði. Um öryggismál sagði Jón Gunnarsson að alþjóðleg samvinna í flugöryggi væri mikilvæg til að viðhalda gæðum og þar yrði að hafa í huga mikilvægi þjálfunar og þekkingar í flugrekstri.

Auk ráðherra fluttu ávörp við setningu fundarins þau Fang Liu, framkvæmdastjóri ICAO, og Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum