Hoppa yfir valmynd
4. september 2017 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Athugasemd frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti vegna umfjöllunar um lögmæti ívilnanasamnings

Í umfjöllun fjölmiðla um málefni kísilvers United Silicon hefur komið fram misskilningur þess efnis að ívilnanasamningur fyrirtækisins við ríkið hafi verið úrskurðaður ólöglegur af Eftirlitsstofnun EFTA. Af þessu tilefni vill atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið gera eftirfarandi athugasemd.

Samningur sá sem vísað er til og Eftirlitsstofnun EFTA sagði vera ólögmætan kom aldrei til framkvæmda. Hann var gerður við Íslenska kísilfélagið ehf., Tomahawk Development á Íslandi ehf. svo og GSM Enterprises LLC og var undirritaður 17. febrúar 2011. Það fjárfestingarverkefni laut að því að reisa og reka 50 þúsund tonna kísilver í Helguvík. Fjárfestingarverkefnið varð aldrei að veruleika og framkvæmdir hófust ekki. Fjárfestingarsamningurinn var því felldur niður. Ekki voru veittar neinar ívilnanir á grundvelli fjárfestingarsamningsins og því ekki forsendur til að krefjast endurheimtu.

Þann 9. apríl 2014 var aftur á móti undirritaður fjárfestingarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og United Silicon hf. um byggingu og rekstur 21 þúsund tonna kísilvers í Helguvík á Reykjanesi. Sá samningur hefur lagastoð í rammalöggjöf um ríkisstyrki sem samþykkt var á Alþingi í júní 2015. Sá samningur er í gildi og var hann kynntur fyrir Eftirlitsstofnun EFTA áður en hann kom til framkvæmda.

Sú fullyrðing að ívilnanasamningur United Silicon hafi verið úrskurðaður ólögmætur af Eftirlitsstofnun EFTA er því ekki á rökum reist. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira