Hoppa yfir valmynd
4. september 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Dagur íslenskrar náttúru haldinn hátíðlegur í 7. sinn

Dagur íslenskrar náttúru er 16. september - myndHugi Ólafsson

Dagur íslenskrar náttúru verður haldinn hátíðlegur að venju þann 16. september næstkomandi. Þetta er í sjöunda sinn sem íslenskri náttúru er fagnað á þessum degi.

Hefð er fyrir því að stofnanir, félagasamtök, sveitarfélög, skólar, fyrirtæki og einstaklingar hafi daginn í huga í sinni starfsemi. Þeir sem nýta samfélagsmiðla til að vekja athygli á íslenskri náttúru og eða viðburðum tengdum deginum eru minntir á myllumerkin #íslensknáttúra og #DÍN, sem stendur fyrir Dag íslenskrar náttúru.

Að þessu sinni ber daginn upp á laugardegi og má því búast við að hluti dagskrár fari fram dagana á undan eða eftir 16. september. Mun umhverfis- og auðlindaráðherra til að mynda afhenda Fjölmiðlaverðlaun ráðuneytisins og Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti föstudaginn 15. september.

Senda má upplýsingar um viðburði, verkefni og uppákomur sem efnt er til í tilefni dagsins til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á netfangið [email protected]. Verða þær þá birtar á  vefsvæði Dags íslenskrar náttúru á vef Stjórnarráðsins sem er á slóðinni www.stjornarradid.is/din

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum