Hoppa yfir valmynd
5. september 2017 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra heimsótti Europol og Eurojust

Ráðherra og fylgdarlið hjá Europol. Frá vinstri: Oldřich Martinù, Sigríður Á. Andersen, Margrét Kristín Pálsdóttir, Laufey Rún Ketilsdóttir, Ragna Bjarnadóttir og Karl Steinar Valsson. - mynd

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra heimsótti á dögunum höfuðstöðvar Europol í Haag í Hollandi. Ráðherra heimsótti þar einnig Eurojust sem er stofnun Evrópusambandsins á sviði ákærumála í sakamálum sem teygja sig yfir landamæri.

Karl Steinar Valsson, fulltrúi Íslands hjá Europol, tók á móti ráðherra og hópi starfsmanna bæði úr ráðuneyti dómsmála og samgöngu- og sveitastjórna. Heimsóknin hófst á fundi ráðherra með aðstoðarforstjóra Europol, Oldřich Martinù, þar sem meðal annars var rætt um mikilvægi samstarfs landanna en upplýsingar sem Ísland lætur stofnuninni í té skipta miklu máli í heildarsamhenginu. Aðstoðarforstjórinn lýsti einnig yfir ánægju með aðkomu Íslands að starfseminni en aukin aðkoma landsins að ýmsum verkefnahópum undanfarin ár hefur meðal annars skilað sér í aukinni þekkingu á málaflokkunum á Íslandi.

Því næst fóru starfsmenn stofnunarinnar yfir reglur um öflun, greiningu og miðlun upplýsinga, hvernig Europol nýtir sér upplýsingar frá samstarfslöndum til að greina þróun brota, tengingar milli landa og aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi. Þá voru málefni flóttamanna rædd og hvað Europol gerir til að aðstoða samstarfslönd í aðgerðum sínum. Síðast en ekki síst var rætt um vörslu gagna, hvernig viðkvæmar persónuupplýsingar eru meðhöndlaðar og eftir atvikum miðlað.

Ísland undirritaði samstarfssamning við Eurojust árið 2005 og eru forsvarsmenn stofnunarinnar mjög áfram um frekara samstarf. Ráðherra sagði eftir heimsóknina til Eurojust að enginn vafi léki á því að samstarf ríkja er nauðsynlegt til að stemma stigu við eða uppræta glæpastarfsemi af ýmsum toga.

  • Dómsmálaráðherra og aðstoðarforstjóri Europol. - mynd
  • Ráðherra heimsótti einnig Eurojust. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum