Hoppa yfir valmynd
6. september 2017 Innviðaráðuneytið

Jón Gunnarsson tók þátt í ráðstefnu um ný tækifæri á Grænlandi

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Pétur Ásgeirsson ræðismaður Íslands í Grænlandi. - mynd

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra tók í gær þátt í ráðstefnu á Grænlandi um ný tækifæri í samskiptum ríkjanna. Ræddi hann við starfsbróður sinn um mál tengd samgöngum og var viðstaddur vígslu nýrrar hafnar í Nuuk.

Megin efni ráðstefnunnar snerist um samstarf ríkjanna á sviði viðskipta, ferðaþjónustu og samgangna. Flutt voru erindi um flug og skipaflutninga milli landanna og meðal þeirra sem töluðu voru Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, Árni Gunnarsson, forstjóri Flugfélags Íslands, Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, Michael Riis, forstjóri Royal Greenland, Jakob Nitter Sörensen, stjórnarformaður Air Greenland og aðalerindið flutti Svend Hardenberg, varaformaður Grænlensk-íslenska viðskiptaráðsins.

Jón Gunnarsson flutti lokaorð ráðstefnunnar og sagði hann mikilvægt að ríkin tækju frumkvæði og nýttu tækifærin við uppbyggingu innviða og bættra flutninga milli landanna. Tenging Íslands og Grænlands hefði aldrei verið eins góð og nú en hana mætti enn bæta. Hann sagði aukna samvinnu Eimskips og Royal Arctic Line mikilvæga bæði hvað varðaði tíðni og aukna flutningsgetu með nýjustu skipum sem hönnuð væru til siglinga á norðurslóðum. Flug og siglingar væru mikilvægar greinar sem styddu hvor aðra og opnuðu ný tækifæri til samskipta.

Einnig nefndi ráðherra flug Air Greenland og Air Iceland Connect milli landanna og minnti á flug NorlandAir á Akureyri og Nerlerit Inaat sem hann sagði ekki mega vanmeta. Ráðherra sagði alla þessa starfsemi grundvallast á sterkum innviðum – fyrirtækin væru ófær um að veita þessa miklu þjónustu ef ekki væri fyrir hendi viðbúnaðargeta í leit og björgun, örugg  flugleiðsaga, flugvellir og hafnir. Hann fagnaði metnaðarfullum áætlunum Grænlendinga um uppbyggingu flugvalla sem hann sagði mikilvægt öryggisatriði á norðurslóðum þar sem langt væri á milli þeirra og ekki síður tækifæri til aukinnar þróunar í ferðaþjónustu.

Viðræður samgönguráðherra landanna snerust meðal annars um fyrirkomulag flugleiðsögu og aukin samskipti landanna. Grænland undirbýr nú opnun ræðismannsskrifstofu í Reykjavík en Ísland hefur haft ræðismann á Grænlandi frá 2013. Gegnir því embætti Pétur Ásgeirsson en hann átti þátt í undirbúningi ráðstefnunnar og skipulagði heimsókn ráðherra.

  • Jón Gunnarsson flutti lokaorð á ráðstenu í Nuuk um ný tækifæri í samskiptum Grænlands og Íslands. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum