Utanríkisráðuneytið

Erlendir sendiherrar upplýstir um stöðu mála í íslenskum stjórnmálum

Guðlaugur Þór ræðir við sendiherrana - mynd
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra boðaði sendiherra erlendra ríkja á Íslandi á sinn fund í utanríkisráðuneytinu í dag og upplýsti þá um stöðuna sem uppi er í stjórnmálum hér á landi. Á fundinum fór utanríkisráðherra yfir atburði síðustu daga sem leiddu til stjórnarslitanna, kosningabaráttuna framundan, auk þess sem hlutverk starfsstjórnar var útskýrt fyrir sendiherrunum. Þá voru lagaákvæði um uppreist æru útskýrð sem og þær breytingar á lögunum sem hafa verið í farvatninu hjá dómsmálaráðherra frá því síðasta vor. "Það er eðlilegt að margar spurningar vakni hjá sendifulltrúum erlendra ríkja við aðstæður eins og þær sem við höfum séð síðustu daga," segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. "Við höfum orðið vör við mikinn og útbreiddan misskilning hjá alþjóðlegum fjölmiðlum um tildrög stjórnarslitanna og þýðingu hugtaksins uppreist æra og utanríkisþjónustan hefur þurft að bregðast við til að leitast við að leiðrétta slíkan misskilning. Þess vegna er gott að geta útskýrt hlutina milliliðalaust fyrir trúnaðarmönnum erlendra ríkja hér á landi," segir utanríkisráðherra.

Utanríkisráðherra heldur til New York síðar í dag þar sem hann mun halda ræðu Íslands á allsherjarþinginu síðdegis á morgun föstudag en nú stendur yfir ráðherravikan svokallaða í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn