Hoppa yfir valmynd
Utanríkisráðuneytið

Norræna fyrirtækjasetrið opnað í New York

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra opnaði fyrir hönd Íslands Norræna fyrirtækjasetrið, eða Nordic Innovation House-New York, við hátíðlega athöfn í New York borg í gær. Setrið er ætlað smáum og meðalstórum fyrirtækjum sem sækja á Bandaríkjamarkað og geta þar fengið aðstöðu, ráðgjöf og staðbundið tengslanet. Fyrirtækjasetrið er samstarfsverkefni Norðurlandanna fimm; Íslands, Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs og Finnlands með stuðningi Nordic Innovation og Norrænu ráðherranefndarinnar.

,,Hér er utanríkisþjónustan að sinna því hlutverki sem ég hef lagt megin áherslu á  - viðskiptasókn og þjónustu við atvinnulífið -  sem er einmitt kjarni þeirrar framtíðarsýnar sem birtist í nýrri skýrslu um utanríkisþjónustuna" segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. Við opnum dyr fyrir smærri og meðalstór fyrirtæki að spennandi mörkuðum í gegnum norrænafyrirtækjasetrið sem var að opna í New York borg. ,,Verkefnið, fyrir hönd Íslands, er sett upp og leitt af aðalræðisskrifstofu Íslands í New York í góðu samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð, Íslandsstofu og hin Norðurlöndin. Ég sé mikil tækifæri fyrir Ísland í að  nýta jákvætt vörumerki og víðtækt tengslanet Norðurlandanna, í þágu íslenskrar viðskiptasóknar inn á nýja markaði. Ef vel tekst til mætti hugsa sér að skoða að opna fleiri slík setur undir hatti Norðurlanda á fjar mörkuðum t.a.m.  í Asíu".

Áhugasöm fyrirtæki eru hvött til að hafa samband við Hlyn Guðjónsson aðalræðismann og viðskiptafulltrúa í síma 545 7766 (4 tíma munur er á Íslandi og New York) eða í tölvupósti á [email protected]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira