Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Vaxandi sýklalyfjanotkun fólks hér á landi

Sýklalyfjanotkun fólks hér á landi jókst um 5% árið 2016 frá fyrra ári samkvæmt nýrri skýrslu sóttvarnalæknis. Sýklalyfjaónæmi er enn fremur lágt á Íslandi en hefur þó aukist. Sýklalyfjanotkun í dýrum er með því sem minnst þekkist í Evrópu.

Sóttvarnalæknir gefur árlega út skýrslu um sýklalyfjanotkun hjá mönnum og dýrum, ásamt faraldsfræði sýklalyfjaónæmra baktería. Skýrslan fyrir árið 2016 er nú komin út og leiðir í ljós að notkun sýklalyfja hjá mönnum fer vaxandi. Í tilkynningu sóttvarnalæknis segir að þessar niðurstöður valdi ákveðnum vonbrigðum því á sama tíma hafi sýklalyfjanotkun hjá mönnum minnkað hjá hinum Norðurlandaþjóðunum. Þar segir einnig að það veki athygli að notkun sýklalyfja hjá börnum yngri en 5 ára og fólki eldra en 65 ára aukist milli áranna 2015 og 2016 en notkunin hjá þessum aldurshópum hafði aftur á móti dregist saman árin á undan.

Sóttvarnalæknir segir vonandi að skýrslan muni reynast gagnleg í baráttunni við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Ljóst sé að hér á landi þurfi að leggja í verulegt átak með læknum við að bæta notkun sýklalyfja. Einnig þurfi að efla eftirlit með sýklalyfjaónæmum bakteríum í innlendum og erlendum matvælum.

Starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra skilaði í apríl á þessu ári skýrslu um aðgerðir gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Hópurinn lagði þar fram tíu tillögur, m.a. um hvernig draga megi úr sýklalyfjaónæmi í mönnum, en óskynsamleg og mikil sýklalyfjanotkun er ein helsta ástæðan fyrir aukinni útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería, líkt og fram kemur í umfjöllun sóttvarnalæknis.

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira