Hoppa yfir valmynd
Forsætisráðuneytið

Samstarfssamningur við Kvenréttindafélag Íslands

Fríða Rós Valdimarsdóttir og Þorsteinn Víglundsson - myndVelferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið og Kvenréttindafélag Íslands hafa gert með sér samning um að félagið sinni fræðslu og upplýsingagjöf um jafnrétti kynjanna á innlendum og erlendum vettvangi í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. 

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra og Fríða Rós Valdimarsdóttir, formaður stjórnar Kvenréttindafélagsins undirrituðu samning þessa efnis síðastliðinn mánudag. Meginmarkmiðið er að efla fræðslu um jafnrétti kynjanna, bæði gagnvart almenningi en einnig með sértækri fræðslu fyrir tiltekna hópa. 

Ráðherra segir mikilvægt að efla fræðslu og umræðu um kynjajafnrétti á öllum sviðum samfélagsins, því almenn þekking og skilningur á jafnréttismálum sé forsenda framfara: „Við eigum að gera jafnréttismálum hærra undir höfði, setja okkur háleit markmið og vinna að þeim saman. Ég tel að samstarfssamningurinn við Kvenréttindafélag Íslands sé góð leið til að efla jafnréttisstarfið og færa umræðuna um þessi mál nær daglegu lífi fólks í samfélaginu.“

Samkvæmt samstarfssamningnum skal Kvenréttindafélagið standa að:

  • Árlegu námskeiði fyrir konur, þar á meðal konur af erlendum uppruna, þar sem fjalla skal um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, þar með talin borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, með það að markmiði að auka þátttöku allra kvenna í umræðu og starfi á opinberum vettvangi. 
  • Árlegum samráðsfundum með konum á Alþingi og í sveitarstjórnum um leiðir til að auka þáttöku kvenna og styrkja stöðu þeirra á vettvangi stjórnmálanna.
  • Árlegum samráðsfundum með kennurum sem kenna kynja- og jafnréttisfræði á öllum skólastigum í því augnamiði að auka þekkingu og færni kennara á sviði jafnréttismála.
  • Kynjaþingi frjálsra félagasamtaka á sviði jafnréttismála, á tveggja ára fresti, sem haldið skal til hliðar við jafnréttisþing stjórnvalda.
  • Fræðslu fyrir almenning, meðal annars með árlegri útgáfu tímaritsins 19. júní, opnum fundum, útgáfu námsefnis um jafnréttismál á rafrænu formi eða prenti og með gerð upplýsingaefnis á íslensku og ensku til birtingar á vef félagsins.
Samningurinn gildir frá 1. október 2017 til 1. október 2018 og greiðir velferðarráðuneytið Kvenréttindafélaginu 10 milljónir króna til að sinna þeim verkþáttum sem samningurinn tekur til. Kveðið er á um að framkvæmd verkefna samkvæmt samningnum fari fram í nánu samráði við velferðarráðuneytið.

Saga Kvenréttindafélagsins er samofin sögu kvennahreyfingarinnar á Íslandi en félagið fagnaði 27. september síðastliðinn 110 ára afmæli sínu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira