Hoppa yfir valmynd
Utanríkisráðuneytið

Íslenskt viðskiptaumhverfi í fremstu röð

Í dag lauk reglubundinni endurskoðun viðskiptastefnu Íslands á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) í Genf. Fyrir endurskoðunina, þá fimmtu sem Ísland gengst undir, hafði WTO unnið umfangsmikla úttekt á viðskiptastefnu Íslands og við endurskoðunina gafst aðildarríkjum WTO tækifæri til að koma með spurningar og gera athugasemdir við stefnuna. Meginniðurstaða endurskoðunarinnar er að íslenskt viðskiptaumhverfi sé opið og viðskiptastefna Íslands í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Efnahagsbati Íslands í kjölfar áfalla ársins 2008 var umtalsefni margra aðildarríkja. Sérstök athygli var vakin á því að Ísland hefði ekki gripið til viðskiptahindrana í kjölfar efnahagsörðugleikanna, heldur þvert á móti aukið viðskiptafrelsi. Í þeim efnum var fullt afnám tolla á iðnaðarvörur sérstaklega nefnt.

„Þetta eru auðvitað mjög sterk og jákvæð skilaboð aðildarríkja WTO að Ísland sé í fremstu röð ríkja þegar kemur að frelsi í alþjóðlegum viðskiptum. Úttektin staðfestir t.d. að 90% af okkar tollalínum bera engan toll og hún staðfestir ennfremur að Ísland er á réttri leið m.a. vegna ákvarðana sem teknar hafa verið um afnám tolla og aukið viðskiptafrelsi" segir Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra.

Ísland hvatti aðildarríki stofnunarinnar til að hafa jafnréttismál sérstaklega í huga við mótun og endurskoðun viðskiptastefnu sinnar og mæltist sú hvatning vel fyrir.

Með endurskoðunarferlinu fylgjast aðildarríkin með breytingum á viðskiptastefnu hvers annars. Tilgangurinn er að auka gagnsæi og skapa grundvöll fyrir frekari framfarir í alþjóðlegum viðskiptum. Fjallað var um stöðu efnahagsmála og helstu breytingar sem orðið hafa í viðskiptaumhverfi landsins frá síðustu úttekt árið 2012.

Unnur Orradóttir Ramette, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, fór fyrir sendinefnd Íslands, en auk annars fulltrúa utanríkisráðuneytisins sátu fundinn fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis ásamt fastanefnd Íslands í Genf. Næsta úttekt á viðskiptastefnunni mun eiga sér stað eftir sjö ár.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira