Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Tillögur um breytingar á jöfnunarframlögum Jöfnunarsjóðs

Kristinn Jónasson, formaður nefndarinnar, kynnti helstu niðurstöður skýrslunnar á ársfundi Jöfnunarsjóðs. - mynd

Nefnd sem innanríkisráðherra skipaði í september 2016 til að leggja fram tillögur um fyrirkomulag nýrra aðferða hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga við jöfnun á útgjaldaþörf og tekjumöguleikum sveitarfélaga hefur skilað samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skýrslu sinni.

Ráðherra fer nú yfir tillögurnar og ákveður næstu skref en tillögurnar voru kynntar bæði á ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga nú í vikunni.

Unnið hefur verið að heildarendskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga frá árinu 2010. Vinnuhópur sem þá var skipaður skilaði árið 2012 drögum að nýju líkani fyrir jöfnunarframlög sjóðsins sem vinna þurfti áfram og skyldi nýja nefndin hafa þær tillögur til hliðsjónar við vinnu sína. Nefndin var sammála um að með auknum verkefnum hafi regluverk sjóðsins orðið flóknara og þar af leiðandi ekki auðvelt að hafa heildaryfirsýn yfir starfsemi hans. Sveitarstjórnarmenn tali því gjarnan um að úthlutunarreglur sjóðsins séu of flóknar.

Nefndin var sammála um að megintilgangur með endurskoðun á Jöfnunarsjóði væri:

  1. Að einfalda regluverkið og auka gegnsæi um forsendur úthlutunar. Engu að síður sé ljóst að forsendur fyrir jöfnun kalli á margar mælingar og breytur til að jafna aðstöðumun sveitarfélaganna hvað varðar tekjumöguleika og útgjaldaþarfir.
  2. Að auka gæði jöfnunaraðgerða þannig að sambærileg sveitarfélög fái sambærileg framlög úr sjóðnum.
  3. Að framlög með jöfnunartilgang verði sameinuð sem leiði til markvissari jöfnunar sem jafnframt leiði til betri nýtingar á fjármunum sjóðsins.
  4. Að full nýting eigin tekjustofna sé forsenda úthlutunar til jöfnunar.
  5. Að breytingar á regluverki sjóðsins eigi að stuðla að framþróun og umbótum í skipulagi og rekstri á sveitarstjórnarstigi.
  6. Að aðlögun að nýju kerfi sé nægjanleg í tíma og taki mið af dreifingu byggðar í landinu.
  7. Að jöfnunarkerfið styðji sameiningu sveitarfélaga, feli í sér hvata til sameiningar en að sameining leiði ekki til minni úthlutunar úr Jöfnunarsjóði, a.m.k. ekki í nokkurn tíma.
  8. Og að einhverju leyti það markmið að tekjustofnakerfið og jöfnun meðal sveitarfélaga sé í samræmi við stefnu stjórnvalda varðandi opinber fjármál.

Tillögur nefndarinnar eru að annars vegar verði tilteknar breytingar gerðar strax á regluverki Jöfnunarsjóðs. Hins vegar verið umfangsmeiri breytingar gerðar með lengri aðdraganda. Þær fela í sér að öll helstu jöfnunarframlög sjóðsins verði sameinuð í eitt jöfnunarkerfi. Um er að ræða nýtt líkan sem þróað hefur verið og mætti byggja á til framtíðar við úthlutun jöfnunarframlaga. Lagt er til að þessi tillaga verði sett í samráðs- og kynningarferli næsta árið og að því ferli loknu verði afráðið hvort sú leið sé fýsileg.

Meðal tillagna nefndarinnar má nefna að nýti sveitarfélag ekki útsvarshlutfall að fullu muni koma til skerðingar á framlögum sem nemi vannýttum útsvarstekjum, að hámark verði sett á framlög Jöfnunarsjóðs sem hlutfall af heildarskatttekjum sveitarfélaga og verði það 45% af heildarskatttekjum og að stuðningur við sveitarfélög sem hyggjast sameinast verði aukinn enn frekar.

Ekki náðist samstaða í nefndinni um allar tillögur og þannig skrifar Stefán Eiríksson, einn fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, undir skilabréf nefndarinnar með fyrirvara sem fram kemur í bókun og fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins leggur fram bókun og skrifaði ekki undir skýrsluna.

Í nefndinni sátu Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar sem jafnframt var formaður, Guðný Sverrisdóttir, formaður ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, Sigurður Á. Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Stefán Eiríksson borgarritari, Guðrún Ögmundsdóttir sérfræðingur og Sigurður Guðmundsson sérfræðingur, bæði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Með nefndinni störfuðu Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Guðni Geir Einarsson, Tinna Dahl Christiansen, Bergur Sigurjónsson og Gústav Aron Gústavsson, sérfræðingar hjá Jöfnunarsjóði og Jóhnnes Á. Jóhannesson, sérfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn