Hoppa yfir valmynd
16. október 2017 Dómsmálaráðuneytið

Færri umsækjendur um alþjóðlega vernd

Í september sóttu 104 einstaklingar um alþjóðlega vernd hér á landi og hefur fjöldi mánaðarlegra umsókna um vernd ekki verið lægri frá því í maí á þessu ári. Umsækjendur um vernd eru um 40% færri en í september í fyrra en þá sóttu 176 um alþjóðlega vernd.

Þetta er í fyrsta skipti á þessu ári sem umsóknum hefur fækkað samanborið við sama mánuð árið 2016. Síðustu tvö ár hefur umsóknum fjölgað skarpt á haustin svo um er að ræða áberandi viðsnúning.

Umsóknum frá öruggum upprunaríkjum sem metnar eru bersýnilega tilhæfulausar fækkar og hlutfall þeirra af umsóknum lækkar. Þær voru um 75% allra umsókna í júlí og ágúst en 63% í september. Munar þar mestu um umsóknir ríkisborgara Georgíu sem voru 89 í ágúst en 39 í september.

Líklega má rekja þessa fækkun, a.m.k. að hluta, til breytinga á reglugerð um útlendinga sem tók gildi síðasta sumar. Með henni var Útlendingastofnun veitt heimild til að hraða málsmeðferð eins og unnt er, sérstaklega varðandi umsóknir einstaklinga frá ríkjum sem stofnunin metur sem örugg upprunaríki auk annarra bersýnilega tilhæfulausra umsókna. Þá var einnig áréttuð sú stefna stjórnvalda að vísa brott þeim einstaklingum sem leggja fram tilhæfulausar umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi en brottvísun felur í sér endurkomubann á Schengen-svæðið í ákveðinn tíma.

Þá veitti reglugerðarbreytingin Útlendingastofnun heimild til að fella niður þjónustu við þá sem koma frá öruggum upprunaríkjum og við þá sem teljast vera með bersýnilega tilhæfulausa umsókn um leið og ákvörðun liggur fyrir. Auk þess sem ekki er veitt framfærslufé eftir að umsókn er dregin til baka eða ákvörðun liggur fyrir.

Umsóknum um alþjóðlega vernd á hinum Norðurlöndunum hefur fækkað mjög frá árinu 2015 en fjölgað hérlendis. Ef skoðaður er fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd á Norðurlöndunum yfir 20 mánaða tímabil frá 1. janúar 2016 til 31. ágúst 2017 á hverja 10.000 íbúa kemur í ljós að umsóknir eru flestar á Íslandi eða 56. Næst flestar eru umsóknir í Svíþjóð eða 46. Fæstar eru þær í Noregi eða 12, Danmörku 15 og Finnlandi 17.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira