Hoppa yfir valmynd
17. október 2017 Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma til ársins 2022

Fyrir liggur ný áætlun heilbrigðisráðherra um byggingu 155 hjúkrunarrýma til ársins 2022 til viðbótar þeim 313 rýmum sem þegar eru á framkvæmdastigi samkvæmt eldri framkvæmdaáætlun. Alls munu því verða byggð eða endurgerð 468 hjúkrunarrými á tímabilinu ýmist til fjölgunar rýma eða til að bæta aðbúnað.

Ný framkvæmdaáætlun um byggingu 155 hjúkrunarrýma

Alþingi samþykkti í júní síðastliðnum nýja fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Með henni skapaðist svigrúm til aukinnar uppbyggingar hjúkrunarrýma sem áætlun heilbrigðisráðherra miðast við.

Á höfuðborgarsvæðinu verður hjúkrunarrýmum fjölgað um 80 umfram gildandi áætlun og um 10 í Árborg. Uppbygging miðar einnig að því að bæta aðbúnað íbúa á nokkrum hjúkrunarheimilum þar sem þörf er á að færa aðbúnaðinn til nútímalegs horfs, í samræmi við viðmið velferðarráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila. Áætlað er að byggja 23 rými á Húsavík, 24 á Höfn í Hornafirði og endurgera 18 hjúkrunarrými í Stykkishólmi.

Áform um fjölgun rýma byggist á mati velferðarráðuneytisins á því hvar þörfin er mest og taka mið af fjárhagslegu svigrúmi gildandi fjármálaáætlunar. Áætlaður heildarkostnaður við uppbyggingu 155 hjúkrunarrýma er tæpir fimm milljarðar króna. Í áætluninni er miðað við lágmarksþátttöku hlutaðeigandi sveitarfélaga í framkvæmdakostnaðinum, þ.e. 15% á móti 85% kostnaði ríkissjóðs.

Samkvæmt eldri framkvæmdaáætlun eru nú 313 hjúkrunarrými á framkvæmdastigi

Af þeim 313 hjúkrunarrýmum sem nú eru á framkvæmdastigi eru 219 hjúkrunarrými til fjölgunar rýma en önnur til að bæta aðbúnað. Fjölgunin er fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í Reykjavík, í Kópavogi, í Hafnarfirði og á Seltjarnarnesi. Einnig fjölgar rýmum á Suðurlandi með uppbyggingu hjúkrunarheimilis í Árborg.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira