Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Félags- og jafnréttismálaráðherra styrkir þjónustu við þolendur ofbeldis


Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur veitt Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri samtals 15 milljónir króna til að fjármagna stöður sálfræðinga sem sinna þjónustu við þolendur ofbeldis.

Þetta er þriðja árið í röð sem sjúkrahúsunum eru veitt sérstök framlög í þessu skyni og er það liður í landssamráði um ofbeldi í víðu samhengi sem upphaflega var efnt til með sameiginlegri yfirlýsingu ráðherra þriggja ráðuneyta árið 2014. Ný samstarfsyfirlýsing byggð á þeirri fyrri var undirrituð í mars á þessu ári þar sem fjallað er um víðtækt samráð á landsvísu í því skyni að efla aðgerðir gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og afleiðingum þess.

Við mótun þeirrar þjónustu sjálfræðinga sem framlag félags- og jafnréttismálaráðherra tekur til, hefur verið lögð áhersla á aukna aðstoð, ráðgjöf og meðferð fyrir þolendur eldri brota ofbeldis. Áskoranirnar hafa verið margvíslegar, þar sem áfallasaga þeirra sem í hlut eiga er oft flókin eftir að þolendur hafa sætt ofbeldi til fjölda ára.

„Allt ofbeldi skilur eftir sig áverka og oft varanleg ör, hvort sem um er að ræða andlegt eða líkamlegt ofbeldi. Það hefur sýnt sig að meðferð hjá sálfræðingi líkt og hér um ræðir getur skipt sköpum um það hvernig fólki reiðir af og hvort það nær að vinna úr afleiðingum ofbeldisins á fullnægjandi hátt. Ég tel því mjög mikilvægt að styðja áfram við þessa þjónustu á sjúkrahúsunum tveimur,“ segir Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Framlögin nema 5 milljónum króna til Sjúkrahússins á Akureyri og 10 milljónum króna til geðsviðs Landspítalans.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira