Hoppa yfir valmynd
20. október 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á Umhverfisþingi 2017

Ágætu gestir,

Það er fátt sem skilur að sagnir og raunveruleikann. Mig langar því að byrja á að taka ykkur með mér í stutt ferðalag inn í heim ævintýranna.

Ímyndið ykkur að við séum stödd í hjarta lands hinna 7 konungsdæma og horfum í suðurátt. Þar sem efnaðar ættir með rótgróna og langa valdasögu ráða ríkjum. Allar vilja þær vera ráðandi og berjast því stöðugt innbyrðis um völd. Leyndarhyggja, klækir og ráðabrugg um hvernig hægt sé að tryggja yfirráð einnar ættar, umfram annarrar, stjórnar allri hegðun þeirra sem ráða – og þeim sem ekki láta að stjórn er refsað grimmilega. Hagsmunir heildarinnar víkja fyrir eiginhagsmunum og valdaþrá. Ein ættin vill þó leiða breytingar til sameiningar og samvinnu en fær lítinn hljómgrunn framanaf.

Á meðan allt logar í illdeilum í suðrinu vex dulda ógnin norðan ísveggjarins sem skilur að hið góða og hið illa. Hinum dauðu „the whitewalkers“ sem leynast langt í norðrinu fjölgar stöðugt. Ógnvænlegir grimmir uppvakningar dauðra manna og dýra færa sig hægt og bítandi í suðurátt og útrýma öllu lífi sem þeir komast í tæri við. Fáir hafa séð þá og enn færri trúa að þeir séu til. Uppvakningunum fjölgar ekki línulega heldur í veldisvexti. Ísveggurinn hélt þeim lengi vel í norðrinu en – svo brast ísinn.

Loksins þegar ættirnar í suðri gera sér grein fyrir að ógnin í norðri er raunveruleg hefur hún vaxið svo gríðarlega að endanleg eyðilegging veruleikans sunnan veggjar blasir við – nema allir taki höndum saman og vinni á ógninni saman. Þetta er að sjálfsögðu söguþráður þáttanna Game of thrones sem eru sýndir á Stöð 2.

Eða - er þetta smættuð mynd af raunveruleikanum?

Eins og uppvakningarnir í norðri sem voru fyrst aðeins sögusagnir í suðri, er loftslagsváin óáþreifanleg okkur í hversdeginum. Það er talsvert langt síðan við heyrðum af því að mælingar sýndu að styrkur koltvísýrings í andrúmslofti færi hratt vaxandi og orsakaði þannig vaxandi hlýnun jarðar. Við hlustuðum kannski með öðru eyranu en gerðum fátt í því.

Með tímanum tóku æ fleiri raddir undir að þessi ógn væri raunveruleg og ef við færum ekki að breyta hegðun okkar og draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda og sóun náttúruauðlinda yrði heimur barna okkar ekki mjög lífvænlegur.

Í dag stendur heimurinn frammi fyrir því að loftslagsbreytingar af mannavöldum eru orðnar sýnilegar – í gegnum aukin styrk fellibylja, öflugri og lengri hitabylgjur, hækkandi sjávaryfirborð og bráðnun jökla og heimskautaíss svo fátt eitt sé nefnt.  Svo – líkt og ættirnar í Game of thrones verðum við einfaldlega að setja öll ágreiningsmál og valdabrölt til hliðar og sameinast um að bregðast af öllu afli við áhrifum loftslagsbreytinga.

Það gerum við best með að ráðast að rótum vandans – við verðum að breyta hegðun okkar.

Við þurfum engu að síður líka að horfast í augu við þegar framkomnar og fyrirséðar afleiðingar hlýnunarinnar og aðlaga samfélagið að breyttum veruleika framtíðarinnar.

Góðir gestir,

Að þessu sögðu býð ég ykkur velkomin á Umhverfisþing, hið tíunda í röðinni.

Umhverfisþing eru haldin á grunni ákvæðis í náttúruverndarlögum, þar sem segir að boðað skuli til þingsins að afloknum kosningum og aftur tveimur árum síðar. Þing af þessu tagi hafa verið haldin reglulega annað hvert ár í nú um tvo áratugi. Í samræmi við ákvæði laga boðaði ég til Umhverfisþings nú í vor og var dagsetningin 20. október sett niður fyrir þingið.

Eins og þinggestir vita hafa orðið breytingar í stjórnmálum frá því að þingið var boðað og var fyrirhugaðri dagskrá þess breytt nokkuð með hliðsjón af því. Þó var ákveðið að halda sig við að þema þingsins yrði loftslagsmál. Við munum fara hér yfir stöðu mála í þeim efnum og heyra ýmsar raddir um hvernig við getum brugðist við.

Eitt af mínum fyrstu verkum á ráðherrastóli var að hefja vinnu við gerð nýrrar aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum til að ná yfirsýn yfir möguleika Íslands á að draga úr losun og auka kolefnisbindingu til ársins 2030.

Það er umfangsmikið verkefni og kallar á samstillt átak innan stjórnkerfisins og samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs, félagasamtaka og síðast en ekki síst almennings. Ég fékk því forsætisráðherra til liðs við mig í að leiða gerð aðgerðaáætlunarinnar. Fjármálaráðherra, landbúnaðar- og sjávarútvegs-ráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra tóku einnig beinan þátt í gerð aðgerða- áætlunarinnar í gegnum verkefnisstjórn og faghópa þess.

Við skipuðum samráðsvettvang sem í sátu 22 fulltrúar atvinnulífs, félagasamtaka, stjórnmálaflokka og sambands íslenskra sveitarfélaga. Vettvangurinn fundaði mánaðarlega með verkefnisstjórn og gat þannig komið tillögum og ábendingum um áætlaðar aðgerðir á framfæri beint til verkefnisstjórnar og faghópa. Þess til viðbótar var opnuð heimasíðan co2.is þar sem almenningi gafst kostur á að senda inn tillögur að aðgerðum til að draga úr losun.

Vinnan gekk vonum framar og fyrstu drög að sýn um hvernig Ísland gæti dregið úr losun í takt við skuldbindingar lágu fyrir í byrjun hausts. Aðgerðaáætlunin var þó ekki tilbúin þar sem enn átti eftir að ræða nánar við alla hagaðila, ljúka við gerð allra kafla hennar, gera kostnaðarmat og fá samþykki allra ráðherranna, sem stóðu að baki áætluninni, við efni hennar.

Við stjórnarslitin varð að setja gerð áætlunarinnar á ís. Mig langar að nota þetta tækifæri til að þakka samráðherrum mínum og öllum öðrum sem komu að vinnu við gerð aðgerðaáætlunarinnar kærlega fyrir samstarfið síðustu mánuðina; krafturinn og jákvæðnin sem hefur ríkt í kringum undirbúning og gerð áætlunarinnar sýnir berlega hversu mikill einhugur er á meðal okkar allra um að vinna saman að þessu mikilvæga verkefni.

Sviðsmyndin um milljón tonn sem Sigurður Ingi Friðleifsson mun kynna hér á eftir byggir á megináherslum aðgerðaáætlunarinnar og vinnu faghópa en er þó aðeins ein sviðsmynd af mörgum sem hægt væri að setja fram til að ná markmiðinu um 35-40% minni losun 2030 en var árið 1990. Hún er hvatning til okkar allra um að við getum hæglega náð markmiðum okkar og ég bind miklar vonir við að næsta ríkisstjórn láti það verða eitt af sínum fyrstu verkum að taka upp þráðinn að nýju og ljúka gerð aðgerðaáætlunarinnar á komandi vetri eins og stóð til.

 

Góðir gestir,

Það er fjölbreytt dagskrá framundan. Við fáum til að mynda að heyra hvaða áhrif loftslagsbreytingar munu hafa á Ísland. Við skyggnumst líka í hafið. Þar eru breytingar síður sýnilegar en á landi og í lofthjúpnum, en sannarlega ekki afdrifaminni. Súrnun hafsins kann að vera ein mesta ógn við lífríki hafsins sem við höfum séð. Það hlýtur vera sérstakt umhugsunarefni fyrir fiskveiðiþjóð.

Við fáum að heyra af nýrri úttekt á stöðu okkar gagnvart skuldbindingum í Kýótó-bókuninni, sem gilda til 2020. Þar er staðan verri en við höfðum vonast til. Ég vona að það verði okkur brýning til góðra verka, svo við getum staðið við skuldbindingar í Parísarsamningnum til 2030.

Hér verður líka fjallað um hvernig árangur í loftslagsmálum getur farið saman við framfarir á öðrum sviðum. Við getum nýtt hreina innlenda orku í stað innflutts jarðefnaeldsneytis á bíla og skip. Við getum dregið úr loftmengun og bætt heilsu. Við getum endurheimt vistkerfi og aukið við nytjaskógrækt og bundið um leið kolefni úr andrúmslofti. Við getum virkjað kraft nýsköpunar í tækni og atvinnulífi og - við getum öll dregið úr sóun og beint neyslu okkar í ábyrgari farveg.

En, er þetta samt ekki of dýru verði keypt? Svarið er nei, þvert á móti. Það er ágætt að horfa á erlend dæmi í þessu samhengi. Við horfum gjarnan til granna okkar á Norðurlöndunum og þar eru skýr dæmi um að strangar umhverfiskröfur fara vel saman við öflugt efnahagslíf og almenna velferð.

Á þessu umhverfisþingi horfum við meira að segja miklu lengra. Heiðursgestur okkar, Monica Araya, er virt sem fræðimaður og baráttukona í umhverfismálum í sínu heimalandi, Kosta Ríka í Mið-Ameríku. Þar hafa stjórnvöld lengi haft þá sýn að gera umhverfisvernd hátt undir höfði – vernda regnskóga og aðrar náttúruperlur, sýna gætni í nýtingu auðlinda og metnað í umhverfismálum í alþjóðlegri umræðu.

Kosta Ríka telst til þróunarríkja og er fátækara en ríki í Norður-Evrópu. Íbúar búa engu að síður við einhver mestu lífsgæði og velferð í sínum heimshluta, sem sést í tölum um efnahag, lífslíkur og fleiru. Það þarf ekki að koma upp mengandi stóriðju í hverri vík til að skapa vöxt og velferð.

Kæru gestir,

Aldrei áður hafa loftslagsmálin verið tekin jafn föstum tökum og á jafn samhentan og þverpólitískan hátt og við höfum gert síðustu mánuðina. Aldrei áður hafa tækifærin til að koma Íslandi hratt áfram inn í græna og skapandi framtíð verið jafn mörg og nú.

Loftslagsbreytingar af mannavöldum fela sannarlega í sér alvarlegar áskoranir en eru um leið okkar stærsta tækifæri til að skapa komandi kynslóðum sjálfbæra og bjarta framtíð. Og við eigum að nýta okkur það.

Með þessum orðum er 10. Umhverfisþing sett og ég fel forseta þingsins, Lindu Blöndal að taka við stjórn þess.

Takk fyrir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum