Hoppa yfir valmynd
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Upptökur frá Umhverfisþingi aðgengilegar

Frá setningu X. Umhverfisþings. - mynd

Góður rómur var gerður að X. Umhverfisþingi sem haldið var í Hörpu sl. föstudag en þar voru loftslagsmál í brennidepli. Nálgast má upptökur frá þinginu á dagskrársíðu þess.

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpaði þingið við setningu þess og gerði þar að umræðuefni mikilvægi þess að vera samstíga í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Ráðherra kom víða við í ávarpi sínu, ræddi núverandi stöðu Íslands og framtíðarsýn sína í loftslagsmálum og kom ævintýraheimur Game of Thrones þáttanna m.a. við sögu.  Nálgast má ræðu ráðherra á vef Stjórnarráðsins.

Heiðursgestur þingsins var Mónica Araya sem er virt sem fræðimaður og baráttukona í umhverfismálum í sínu heimalandi, Kosta Ríka í Mið-Ameríku. Þar hafa stjórnvöld lengi haft þá sýn að gera umhverfisvernd hátt undir höfði – vernda regnskóga og aðrar náttúruperlur og sýna gætni í nýtingu auðlinda og metnað í umhverfismálum í alþjóðlegri umræðu. Araya varð tíðrætt um það hversu margt Kosta Ríka og Ísland eiga sameiginlegt og hversu mikil áhrif slík smáríki geta haft á alþjóðavísu í loftslagsmálum.

Nemendur úr Menntaskólanum við Hamrahlíð ræddu um sýn ungs fólks á loftslagsmál og hvernig þeir telja að megi auka áhuga þess á málaflokknum.

Þá var rætt á þinginu um áhrif loftslagsbreytinga á Ísland og hafið í kring, sagt var frá stöðu Íslands gagnvart Kýótó-bókuninni, fjallað um möguleika stjórnvalda og einstaklinga til að draga úr losun og framtíðarsýn um hvernig draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi var lýst. Þá voru orkuskipti, loftgæði, binding kolefnis og ábati fyrirtækja af umhverfisstarfi til umræðu. Að lokum ræddu níu fulltrúar ólíkra sjónarmiða um loftslagsmál í pallborði.

Upptökur frá þinginu eru nú aðgengilegar á dagskrársíðu þingsins.  

 

Umhverfisþing er þétt setið

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira