Hoppa yfir valmynd
Forsætisráðuneytið

Ráðherra afhenti jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs

Frá afhendingu jafnréttisviðurkenningar Jafnréttisráðs í Hannesarholti - myndJafnréttisstofa

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, afhenti við formlega athöfn í gær jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs við hátíðlega athöfn í Hannesarholti.

Í þetta sinn hlutu tveir aðilar viðurkenninguna sem báðir hafa skarað fram úr á sviði jafnréttismála en á afar ólíkan hátt. Þetta eru Hafnarfjarðarbær og Druslugangan. 

Við sömu athöfn opnaði Kristín Jóndóttir vefinn kvennalistinn.is. Vefurinn hefur það að markmiði að varðveita á einum stað öll gögn tengd kvennaframboðunum, miðla reynslu og þekkingu um þessi sögulegu framboð og gera sýnileg þau miklu áhrif sem Kvennalistinn hafði á Alþingi og út í samfélaginu. 

Ráðherra minntist kvennafrídagsins í ávarpi, þegar hann var fyrst haldinn hér á landi árið 1975: „...þegar íslenskar konur létu svo hátt í sér heyra og eftirminnilega að það heyrðist til annarra landa bæði nær og fjær og ómurinn bergmálar enn“ sagði ráðherra meðal annars en sagði líka að því bæri að halda til haga að þótt dagurinn hefði verið haldinn hátíðlegur undir þeim merkjum að konur tækju sér frí hafi undirtónninn verið grafalvarlegur þar sem um 90% kvenna lögðu niður störf til að sýna mikilvægi kvenna á vinnumarkaði og til að krefjast sömu réttinda og kjara og karlar á vinnumarkaði.

„Þótt ótal margt hafi áunnist í jafnréttisbaráttunni á þeim rúmlega fjörutíu árum sem liðin eru frá kvennafrídeginum árið 1975 er það því miður ennþá svo að konur njóta ekki sömu launa og karlar fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Kynbundinn launamunur er staðreynd enn þann dag í dag en við getum ekki sem siðað samfélag búið við það öllu lengur.

Viðurkenning Hafnarfjarðarbæjar

Í rökstuðningi valnefndar fyrir viðurkenningu Hafnarfjarðarbæjar segir meðal annars að Hafnarfjarðarbær sé framsækið sveitarfélag á sviði jafnéttismála sem hafi í sumar hlotið, fyrst íslenskra sveitarfélaga, vottun um að það starfræki launakerfi sem stenst kröfur jafnalaunastaðalsins. Þá er því lýst hvernig bæjarfélagið hafi unnið markvisst að launajafnrétti á undanförnum árum, bæði með innleiðingu launakerfis í samræmi við janlaunastaðalinn, en einnig með þeirri áherslu að nýta jafnréttisáætlun sína til að stuðla að sem jöfnustu hlutfalli kynjanna í stjórnunarstöðum og ákveðnum starfsgreinum hjá sveitarfélaginu. Valnefndin segir í lokaorðum sínum að markviss vinna sveitarfélagsins á sviði jafnréttismála geri Hafnarfjarðarbæ að heildstæðum brautryðjanda á sviði jafnréttismála á sveitarstjórnarstigi. Reynslan sem Hafnarfjarðarbær hafi byggt upp í gegnum metnaðarfullt starf ætti því að vera öðrum sveitarfélögum til eftirbreytni og hvatningar. 

Viðurkenning Druslugöngunnar

Druslugangan er samstöðuganga með þolendum kynferðisofbeldis sem hefur það markmið að uppræta fordóma varðandi klæðaburð og ástand þeirra sem verða fyrir kynferðisofbeldi, vekja athygli á því að gerendur bera ábyrgð á kynferðisofbeldi og berjast gegn þeirri orðræðu sem gefur til kynna að kynferðislegt ofbeldi geti verið þolendum að kenna. Eins og fram kemur í umsögn valnefndar hefur druslugangan hlotið alþjóðlega útbreiðslu frá því fyrst var efnt til hennar í Toronto í Kanada árið 2011. Hér á landi hefur verið efnt til slíkrar göngu árlega síðan þá og hefur hver ganga beinst að tilteknu  málefni eða ólíkum birtingarmyndum kynferðisofbeldis í samfélaginu. Í rökstuðningi valnefndar segir meðal annars: „Með elju, áhuga og metnaði hafa aðstandendur göngunnar náð að hrífa almenning með sér. Druslugangan er mikilvægt grasrótarstarf sem hefur haft afgerandi áhrif á samfélagið og aukið og breytt umræðunni um jafnrétti.“

 Frá afhendingu jafnréttisviðurkenningarinnar í Hannesarholti

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira