Hoppa yfir valmynd
Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ríkið og Reykjavíkurborg semja um lóðir fyrir 270 íbúðir

Borgarráð hefur staðfest samningsniðurstöðu fjármála- og efnahagsráðuneytis og Reykjavíkurborgar um tvær lóðir sem ríkið hyggst afsala til borgarinnar. Um er að ræða fyrstu lóðirnar sem skipulagðar verða undir íbúðabyggð samkvæmt viljayfirlýsingu fjármálaráðherra og borgarstjóra sem undirrituð var 2. júní síðastliðinn, sem hluti af Húsnæðissáttmála stjórnvalda. Alls er áætlað að um 4.000 íbúðir geti risið á lóðum sem ríkið og Reykjavíkurborg semja nú um.

Lóðirnar tvær eru svokallaðir Sjómannaskóla- og Veðurstofulóðir. Á lóðunum munu rísa að minnsta kosti 270 litlar og hagkvæmar íbúðir fyrir stúdenta, ungt og efnaminna fólk.

Auk þeirrar samningniðurstöðu sem þegar liggur fyrir er standa viðræður yfir milli ríkis og Reykjavíkurborgar um eftirfarandi reiti: Landhelgisgæslulóð við Seljaveg, lóð Borgarspítala, Keldur og Keldnaholt og svæði við Þjórsárgötu og Þorragötu. Samningaviðræður ganga vel og vonir standa til þess að þeim ljúki á næstu vikum eða mánuðum.

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra:

„Húsnæðisvandinn verður ekki leystur með öðru en auknu framboði húsnæðis. Nú liggur fyrir efnisleg niðurstaða varðandi þessar tvær lóðir og það gleður mig að leggja hér lóð á vogarskálar svo að sá vandi leysist sem fyrst.“

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra:

„Sá tími er löngu kominn að þessar lóðir fari í skipulag og byggingu, enda eru þær á besta stað í borginni og það verður gaman að sjá þær fyllast af íbúðum fyrir fólk, íbúðum sem svo mikill hörgull er á.“ 

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur:

„Það er ánægjulegt að stíga þessi skref og það gengur vel að undirbúa samninga um aðrar lóðir sem viljayfirlýsingin náði til. Þetta eru vel staðsettar lóðir sem henta vel til hagkvæmrar uppbyggingar fyrir ungt fólk, stúdenta og fyrstu kaupendur,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira