Hoppa yfir valmynd
31. október 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Álagning opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2016

Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2016. Álögð gjöld eru samtals 186,1 ma.kr. samanborið við 172,4 ma.kr. á síðasta ári og nemur hækkunin því um 13,7 ma.kr. Stærstu breytingarnar á milli ára snerta tekjuskatt lögaðila, sem hækkar um 10,8 ma.kr. og tryggingagjald, sem hækkar um 5,4. ma.kr.

Gjaldskyldum félögum fjölgar um 1.240, eða 3,1% á milli ára, og eru þau nú um 41.718. Aftur á móti fækkar félögum sem greiða tekjuskatt um 2,6% milli ára. Skil framtala hafa þó aldrei verið betri og færri sæta því áætlunum í ár en verið hefur. Þetta gæti skýrt fækkun þeirra sem greiða tekjuskatt. Þá gæti mikil hækkun á afslætti til nýsköpunar og þróunar einnig átt hér hlut að máli. Rétt er þó að hafa í huga að hér er um að ræða svokallaða frumálagningu sem getur tekið ákveðnum breytingum síðar.

Opinber gjöld lögaðila 2016 og 2017

Tafla: Opinber gjöld lögaðila 2016 og 2017

Tekjuskattur lögaðila

Álagður tekjuskattur er 80,5 ma.kr. sem er 15,5% aukning á milli ára en gjaldendum hefur aftur á móti fækkað um 478 eða 2,6%. Ef skoðuð er skipting álagðs tekjuskatts eftir atvinnugreinum þá er fjármála- og vátryggingastarfsemi með hæstu álagninguna eða 29,2 ma.kr. því næst kemur framleiðsla sem er með 9 ma.kr. álagðan tekjuskatt. Þar undir flokkast m.a. vinnsla sjávarafurða og stóriðja.

Tekjuskattur,
hlutfall af heild 2016
Fjármála- og vátryggingastarfsemi 36,3%
Annað 29,5%
Framleiðsla, m.a. vinnsla sjávarafurða og stóriðja 11,2%
Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum 9,4%

Fjármagnstekjuskattur

Lögaðilar bera almennt ekki fjármagnstekjuskatt. Þó skulu þeir lögaðilar sem eru undanþegnir almennri tekjuskattskyldu greiða fjármagnstekjuskatt, eins og sveitarfélög og ýmis sjálfseignarfélög. Álagður fjármagnstekjuskattur á lögaðila nemur 1.884 m.kr. sem er 521 m.kr. hærri fjárhæð en á árinu 2016, eða hækkun um 38,2% milli ára.

Útvarpsgjald

Álagt útvarpsgjald á lögaðila nemur 659 m.kr. sem er 7,7% hækkun á milli ára. Útvarpsgjald á hvern gjaldanda hækkaði úr 16.400 kr. í 16.800 kr. milli áranna 2015 og 2016. Þá fjölgaði gjaldendum þess um 1.916.

Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki („bankaskattur“)

Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki er nú lagður á í sjöunda sinn. Skatthlutfallið er 0,376% og gjaldstofninn er heildarskuldir viðkomandi lögaðila sem eru yfir 50 ma.kr. í lok hvers árs. Bankaskatturinn nemur nú um 8,7 ma.kr. og hækkar aðeins lítillega á milli ára eða um 37 m.kr. Fjórir lögaðilar greiða þennan skatt líkt og á síðasta ári.

Fjársýsluskattur

Álagning fjársýsluskatts, sem er innheimtur í staðgreiðslu nemur tæplega 3 ma.kr. og nær til 146 lögaðila. Skattstofninn er allar tegundir launa eða þóknana fjármála- og tryggingafyrirtækja. Gjaldstofn fjársýsluskatts var 53,8 ma.kr. rekstrarárið 2016 og hækkaði einungis um 2,3% á milli ára. Skatt­hlutfallið var óbreytt frá fyrra ári, 5,5% og hækkaði álagður skattur því einnig um 2,3%. Skýringa á lítilli hækkun gjaldstofns kann að vera að leita í hagræðingaraðgerðum einstakra gjaldenda, eins og viðskiptabankanna.

Sérstakur fjársýsluskattur

Sérstakur 6% fjársýsluskattur leggst á hagnað fjármálafyrirtækja, þ.m.t.  tryggingafélaga, sem er umfram 1 ma.kr. Samkvæmt álagningartölum ríkisskattstjóra nemur hann um 3,6 ma.kr. sem er lækkun um 3,2 ma.kr. frá árinu á undan. Sex fyrirtæki greiða þennan skatt í ár samanborið við átta í fyrra sem skýrir m.a. lækkunina.

Tryggingagjald

Álagning tryggingagjalds nemur 87,5 ma.kr. samanborið við 82 ma.kr. árið áður og er það hækkun um 6,6% á milli ára. Gjaldendum tryggingagjalds fjölgaði um 1.569 eða 8,4%. Skatthlutfall tryggingagjalds lækkaði um 0,64% milli rekstraráranna 2015 og 2016, eða úr 7,49% í 6,85%. Gjaldið er innheimt í staðgreiðslu og er venjulega ágætt samræmi á milli innheimtu og álagningar.

Afsláttur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar

Afsláttur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar nemur alls 2.107 m.kr. samanborið við 1.167 m.kr. í fyrra m.v. frumálagningartölur. Þetta má að mestu rekja til þess að viðmiðunarfjárhæðir styrkhæfs kostnaðar hækkuðu mikið á milli ára. Viðmið styrkhæfs kostnaðar fyrir rannsóknir og þróun innan fyrirtækis er nú 300 m.kr. en var áður 100 m.kr. og vegna aðkeyptrar rannsókna- og þróunarvinnu er nú 450 m.kr. en var 150 m.kr. áður. 114 lögaðilar eiga rétt á afslættinum í ár og fjölgaði þeim um 16 frá því í fyrra. Afslátturinn gengur upp í álagðan tekjuskatt, ef fyrirtækið er með hagnað en er annars útborganlegur að fullu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira