Hoppa yfir valmynd
Forsætisráðuneytið

Staðgengill forsætisráðherra tekur þátt í störfum Norðurlandaráðsþings og ráðherrafundum

Kristján Þór Júlíusson staðgengill forsætisráðherra á Norðurlandaráðsþingi flytur ávarp í þemaumræðum forsætisráðherra - mynd

Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra, samstarfsráðherra Norðurlanda og staðgengill forsætisráðherra á þingi Norðurlandaráðs, tók í gær og í dag þátt í störfum Norðurlandaráðsþings í Helsinki og forsætisráðherrafundum því tengdu.  

Í þemaumræðum forsætisráðherranna og formanna heimastjórna, um efnið “Norðurlönd sem samþættasta svæði heims”, lagði Kristján Þór áherslu á sterkar stoðir samstarfs Norðurlanda, byggða á sameiginlegri sögu og menningararfi – sem og vináttu og samkennd ríkjanna og gagnkvæmt traust.  Þá kynnti Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar formennskuáætlun Svíþjóðar í samstarfi Norðurlandanna á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2018.  

Forsætisráðherrar Norðurlanda funduðu með forsætisnefnd Norðurlandaráðs og fjölluðu m.a. um stjórnsýsluhindranir, svo og norrænt samstarf og Evrópusambandið.  

Á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna var m.a. til umræðu Norðurlöndin og G20 annars vegar, Kína hins vegar. Þá var rætt um Evrópumál og þá sérstaklega úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu. Einnig voru til umræðu margvíslegar áskoranir í öryggis- og varnarmálum og er varða aðgerðir gegn öfgahyggju. Þá var rætt um svæðisbundna samvinnu og samkeppnishæfni Norðurlanda á tímum umskipta til græns samfélags. Í umræðum um umhverfis- og loftslagsmál var lögð áhersla á mikilvægi framkvæmdar Parísarsamkomulagsins. Þá ræddu forsætisráðherrarnir einnig jafnréttismál og þá vakningu sem orðið hefur í umræðu og umfjöllun um ofbeldi gegn konum. 

Forsætisráðherrar Norðurlandanna funduðu einnig með leiðtogum Grænlands, Færeyja og Álandseyja, ásamt forseta Norðurlandaráðs og framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar. Fjallað var um formennsku Noregs á árinu 2017 í samstarfi Norðurlandanna á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar svo og formennskuáætlun Svíþjóðar fyrir árið 2018. Þá var meðal annars rætt um norrænt samstarf meðal annars er varða stjórnsýsluhindranir, stafræna tækni, orkumál og átakið norrænar lausnir á alþjóðlegum viðfangsefnum. 

Í tilefni af 100 ára sjálfstæðisafmæli Finnlands undirrituðu forsætisráðherrarnir sameiginlegar hamingjuóskir til Finnlands. 

Í kvöld sækir staðgengill forsætisráðherra, samstarfsráðherra Norðurlanda og mennta- og menningarmálaráðherra verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs, sem veitt eru í fimm eftirfarandi flokkum: bókmenntaverðlaun, kvikmyndaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun, ásamt barna- og unglingabókmenntaverðlaunum. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira