Hoppa yfir valmynd
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Breytingar á reglugerðum um sundstaði og baðstaði í náttúrunni

Úr Bláa lóninu - myndKarin Beate Nøsterud/norden.org

Gefnar hafa verið út breytingar á reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum og reglugerð um baðstaði í náttúrunni.

Breytingar á reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum varða m.a. kröfur sem gerðar eru til kaldra kerja og flokkun lauga.  Undanfarin misseri og ár hefur köldum kerjum þar sem hitastig vatns er á bilinu 0-16° fjölgað á sund- og baðstöðum. Sömu reglur gilda um heilnæmi vatns í köldum kerjum og í öðrum laugum sem falla undir reglugerðina en ekki er gerð krafa um hreinsibúnað eða sótthreinsun í köldum kerjum ef hægt er að tryggja heilnæmi vatnsins á annan hátt. Þá er í reglugerðinni frestur varðandi endurmenntun fyrir leiðbeinendur í skyndihjálp og björgun framlengdur til 1. janúar 2021.

Breytingar á reglugerð um baðstaði í náttúrunni varða fyrst og fremst skilgreiningar, sótthreinsun á baðstöðum og sýnatöku.  Undanfarin misseri og ár hefur laugum fjölgað sem fá heitt vatn leitt frá borholum eða affallsvatn frá hitaveitu og áform eru uppi um að reisa fleiri slíkar laugar. Hingað til hefur hluti af þessum laugum ekki fallið undir reglugerð um baðstaði í náttúrunni en með breytingu á reglugerðinni er nú kveðið á um afþreyingarlaugar. Gert er ráð fyrir að þær séu starfsleyfisskyldar og að heimilt sé að takmarka gestafjölda ef gerlafjöldi mælist ítrekað yfir hámarksgildum. Óheimilt er að nota sótthreinsiefni á baðstöðum í náttúrunni en heilbrigðisnefnd getur þó heimilað eða fyrirskipað sótthreinsun á tilteknum baðstöðum til að draga úr gróðurmyndun eða til að sótthreinsa vatnið ef gerlafjöldi mælist endurtekið yfir hámarksgildum.

Reglugerð nr. 889/2017 um (4.) breytingu á reglugerð nr. 814/2010, um hollustuhætti á sund- og baðstöðum.

Reglugerð nr. 890/2017 um (1.) breytingu á reglugerð nr. 460/2015, um baðstaði í náttúrunni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira