Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2017 Utanríkisráðuneytið

Tekið verði tillit til EFTA-ríkjanna í samningaviðræðum ESB og Breta

Ráðherrar EFTA-ríkjanna í EES. - myndEFTA

Brexit var í kastljósinu þegar EES-ráðið fundaði í Brussel í dag, ekki síst út frá nauðsyn þess að tekið verði tillit til EFTA-ríkjanna í samningaviðræðum Evrópusambandsins og Breta. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók þátt í fundinum fyrir Íslands hönd. Ráðherrar EFTA-ríkjanna í EES funduðu með Michel Barnier, aðalsamningamanni Evrópusambandsins í viðræðum um útgöngu Bretlands úr sambandinu, í tengslum við fundinn og lögðu þeir fram sameiginleg áhersluatriði ríkjanna þriggja; Íslands, Noregs og Liechtenstein.

Í umræðum um Brexit lagði íslenski utanríkisráðherrann áherslu á lausnamiðaða nálgun fremur en að einblínt væri á vandamálin. Miklu skipti að tekið verði tillit til EFTA-ríkjanna innan EES, komi til tímabundins fyrirkomulags um þátttöku Bretlands í innri markaði Evrópusambandsins eftir útgöngu þess úr sambandinu. Framtíðarskipan samvinnu milli Bretlands, ESB og EFTA-ríkjanna innan EES var einnig rædd og sagði Guðlaugur Þór að leggja yrði áherslu á að leita lausna. „Mikilvægast er að hafa í huga að nýjar viðskiptahömlur koma engum til góða“, segir utanríkisráðherra.

Á EES-ráðsfundinum var að vanda rætt um hvernig framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið gangi. Í ár eru 25 ár síðan samningurinn var undirritaður og kom fram í máli utanríkisráðherra að grundvöllur EES-samstarfsins hafi haldist óbreyttur og að samningurinn væri einn af lykilþáttum íslenskrar utanríkisstefnu. Farsællega hefði tekist að aðlaga EES-samstarfið að breyttum aðstæður og leysa úr þeim áskorunum sem mætt hafi samningsaðilum sl. aldarfjórðung.

Meðal annarra mála sem rædd voru á EES-ráðsfundinum var „gagnahagkerfið“ (e. data economy) en talið er lykilatriði fyrir efnahagslíf á EES-svæðinu að ryðja hindrunum á frjálsum gagnaflutningum milli landa úr vegi, samtímis því að persónuvernd sé tryggð.

Guðlaugur Þór átti hádegisfund með nýjum Evrópumálaráðherra Noregs, Marit Berger Røsland og Aureliu Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein. Í gær, mánudag, fundaði hann með Sir Michael Barrow, fastafulltrúa Bretlands gagnvart Evrópusambandinu. Einnig funduðu ráðherrarnir með þingmannanefnd EFTA-ríkjanna og ráðgjafarnefnd EFTA sem samanstendur af aðilum atvinnulífsins í aðildarríkjum EFTA.

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum