Velferðarráðuneytið

Stjórnsýsla félagsþjónustu efld og eftirlit með þjónustunni aukið

Velferðarráðuneytið í Skógarhlíð - myndVelferðarráðuneytið

Stjórnsýsla og eftirlit með félagsþjónustu sem veitt er af hálfu sveitarfélaga, opinberra stofnana eða á grundvelli samninga verða falin nýrri ráðuneytisstofnun sem unnið er að því að setja á fót í velferðarráðuneytinu. Undir félagsþjónustu sveitarfélaga heyrir t.d. ýmis þjónusta sem snýr að börnum, fjölskyldum, fötluðu fólki, öldruðum og innflytjendum. Auglýst verður eftir stjórnanda stofnunarinnar um helgina og mun auglýsingin birtast á Starfatorgi.

 

Ákvörðun um að fela þessi verkefni sérstakri stofnun byggist á tillögum nefndar sem ráðherra félagsmála skipaði árið 2014 með það að markmiði að styrkja undirstöður heildstæðrar þjónustu ríkis og sveitarfélaga og skilja með skýrum hætti á milli stjórnunar- og eftirlitshlutans annars vegar og veitingu þjónustunnar hins vegar.

 

Víða hafa komið fram ábendingar um að bæta megi stjórnsýslu og eftirlit á sviði félagsþjónustu. Ekki liggja fyrir opinber viðmið um gæði félagsþjónustu, úttektir fara ekki fram með reglubundnum hætti og fyrirkomulag eftirlits með þjónustunni er að sumu leyti óljóst.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustu við fatlaða (ágúst 2010) sem tekin var saman í aðdraganda yfirfærslu málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga var bent á að þótt þjónusta við fatlað fólk flyttist frá ríki til sveitarfélaga yrði ábyrgð á yfirstjórn og eftirliti eftir sem áður á hendi ráðuneytisins og mikilvægt að ráðast í ýmsar úrbætur á þessu sviði. Var meðal annars bent á þörf fyrir mótun gæðastaðla til að tryggja faglega og samræmda þjónustu, gerð samræmdra verklagsreglna og reglubundna öflun upplýsinga af hálfu ráðuneytisins um faglegt starf þjónustuaðila þar sem gripið væri til aðgerða ef frávik kæmu í ljós.

Verkefni nýrrar stofnunar

Verkefni ráðuneytisstofnunarinnar munu miða að því að bæta stjórnsýslu og eftirlit á sviði félagsþjónustu með gæði og öryggi þjónustunnar við notendur að leiðarljósi. Á síðari stigum mun stofnunin einnig annast stjórnsýslu og eftirlit á sviði  barnaverndar.

Hlutverk stofnunarinnar á sviði stjórnsýslu verður meðal annars að sjá um þróun og útgáfu kröfulýsinga, árangursmælikvarða og gæðaviðmiða fyrir þjónustu á þeim málasviðum sem undir hana heyra. Í eftirlitinu felst meðal annars að gera úttektir á þjónustunni, fylgja þeim eftir og bregðast við athugasemdum og ábendingum sem snúa að þjónustunni. Einnig mun stofnunin veita faglegar leiðbeiningar um framkvæmd þjónustu og miðla dæmum um fyrirmyndarverkefni á sviði félagsþjónustu.

Stofnanir ríkisins sem veita þjónustu á því sviði sem eftirlit nýrrar stofnunar tekur til eru Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, Fjölmenningarsetur og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Réttindagæslumenn fatlaðs fólks munu starfa innan ráðuneytisstofnunarinnar og sömuleiðis sérfræðiteymi um ráðgjöf til að draga úr nauðung í þjónustu við fatlað fólk. Einnig mun eftirlit með þjónustu meðferðarheimila á vegum Barnaverndarstofu sem nú er sinnt á skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneytinu flytjast yfir til hinnar nýju stofnunar.

Í þeim tillögum sem byggt er á varðandi hlutverk og verkefni nýrrar stofnunar var gert ráð fyrir að stjórnsýsla og eftirlit á sviði barnaverndar yrðu þar á meðal. Undirbúningur að flutningi þessara verkefna frá Barnaverndarstofu til hinnar nýju stofnunar stendur yfir í ráðuneytinu en sú ráðstöfun krefst meðal annars endurskoðunar á tilteknum greinum barnaverndarlaga.

Stjórnsýsluleg staða stofnunarinnar byggist á lögum um Stjórnarráð Íslands. Um er að ræða sérstaka starfseiningu innan velferðarráðuneytisins, undir stjórn embættismanns sem heyrir undir ráðuneytisstjóra. Stjórnsýsluákvarðanir sem teknar verða af hálfu stofnunarinnar eru ekki kæranlegar til æðra stjórnvalds en hún sætir eftirliti af hálfu umboðsmanns Alþingis líkt og stjórnsýsla ríkis og sveitarfélaga samkvæmt lögum um embættið. Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála vegna málskota helst óbreytt.

Stefnt er að því að stofnunin taki starfa í byrjun næsta árs. Gert er ráð fyrir að starfsmenn verði allt að sjö í upphafi, þar af fjórir sem nú starfa á skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneytinu.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn