Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Lokaskýrsla Norrænu velferðarvaktarinnar

The Nordic Welfare Watch: Final report - myndForsíða skýrslunnar

Út er komin lokaskýrsla Norrænu velferðarvaktarinnar. Um er að ræða skýrslu í TemaNord ritröðinni, en hún er helguð árangri af starfi vinnuhópa eða verkefna á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Norræna velferðarvaktin var rannsóknarverkefni  í formennskuáætlun Íslands 2014 og náði til þriggja ára. Markmið verkefnisins var að finna betri leiðir til að mæla og fylgjast með velferð borgaranna, rannsaka áhrif fjármálaþrenginga og tengdra afleiðinga á norrænu velferðarkerfin og kortleggja hlutverk félagsþjónustu við hvers konar vá. Umfangsmiklar skýrslur hafa verið gefnar út á vegum verkefnisins og er fjallað um helstu niðurstöður þeirra í lokaskýrslunni. Einnig er fjallað um Norrænt velferðarforum og frekari útfærslu nýrra Norræna velferðarvísa. Verkefnið skiptist í þrjá meginþætti:

1. Velferð og vá

Metið var hvernig norræn velferðarkerfi eru undirbúin undir hvers konar vá með sérstaka áherslu á hlutverk félagsþjónustu. Dreginn var lærdómur af starfi Velferðarvaktarinnar sem var stofnsett hér á landi í kjölfar efnahagskreppunnar, viðbragðskerfi annarra Norðurlanda voru kortlögð og skoðað hvernig norræn velferðarkerfi þurfa að búa sig undir áskoranir komandi ára. Sérstök áhersla var lögð á hlutverk félagsþjónustu og hvernig hún getur aukið viðnámsþrótt einstaklinga og samfélaga. Stjórnandi verkefnisins var Guðný Björk Eydal, prófessor við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands og verkefnastjóri Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir, Háskóla Íslands.

2. Kreppur og velferð

Gerð var víðtæk rannsókn á afleiðingum fjármálakreppa á Norðurlöndunum, bæði á yfirstandandi kreppu og kreppum um 1990, og könnuð sérstaklega viðbrögð stjórnvalda og árangur af þeim. Gerður var samanburður við valin Evrópulönd s.s. Eystrasaltsríkin, Írland, Bretland, Grikkland, Ungverjaland, Spán og Portúgal. Dreginn var lærdómur af því sem vel var gert og öðru sem skilaði ekki árangri. Oxford University Press hefur samþykkt að gefa út bók frá þessu verkefni, sem ber vinnuheitið Welfare and the Great Recession. Stjórnandi verkefnisins var Stefán Ólafsson, prófessor við félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands og verkefnastjóri Agnar Freyr Helgason, Háskóla Íslands.

3. Norrænir velferðarvísar

Unnar voru tillögur að Norrænum velferðarvísum til að auðvelda stjórnvöldum yfirsýn yfir samfélagsþróunina á hverjum tíma. Slíkir velferðarvísar auðvelda stefnumótun og ákvarðanatöku þannig að unnt verður að efla frekar norrænu velferðarkerfin. Stjórnandi verkefnisins var Sigríður Jónsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu og verkefnastjóri Håkan Nyman, heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytinu, Svíþjóð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum