Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Lífsgæði aldraðra - 80 ára afmæli Sjómannadagsráðs

Ávarp Óttars Proppé heilbrigðisráðherra á ráðstefnu um lífsgæði aldraðra sem Sjómannadagsráð efndi til í tilefni af 80 ára afmæli ráðsins.

Herra forseti, Guðni Jóhannesson, virðulega Sjómannadagskráð góðir gestir, ungir og aldnir.

Það er svo sannarlega ástæða til að fagna merkum tímamótum. Sjómannadagsráð stendur á áttræðu, þessi stórmerkilegu samtök sem eiga sér stað í hjörtum svo margra landsmanna og eru í raun mikilvægur þráður í sögu þjóðarinnar – og verstöðvarinnar Íslands eins og eitt sinn var sagt.

Sjómannadagskráð var stofnað 25. nóvember árið 1937 og hefur frá árinu 1938 annast hátíðahöld Sjómannadagsins í Reykjavík. Árið 1939 ákvað ráðið að beita sér fyrir byggingu dvalarheimilis fyrir aldraðra sjómenn – það sem við þekkjum undir skammstöfuninni DAS, en happdrættið með því nafni sem við þekkjum öll var svo stofnað til fjáröflunar árið 1954. Þar spilar fólk til að vinna og ef við teljum alla þá sem dvalið hafa síðustu æviárin á heimilum Sjómannadagskráðs meðal vinningshafa, þá eru þeir orðnir býsna margir.

Góðir gestir.

Sem þjóð berum við saman ábyrgð á að búa þannig í haginn að aldraðir fái notið stuðnings og þjónustu eftir því sem aðstæður þeirra og heilsa krefst og þar skiptir máli að velferðarkerfið sé vel í stakk búið til að mæta ólíkum þörfum fólks og sem mest á einstaklingsgrundvelli.

Lífsgæði aldraðra er umfjöllunarefni þessarar áhugaverðu og glæsilegu ráðstefnu.

Ég vil þakka Sjómannadagsráði fyrir að efna til ráðstefnunnar og gera þannig hin merku tímamót að vettvangi faglegrar og mikilvægrar umræðu. Erindin á dagskránni hér á eftir eru hvert öðru áhugaverðara, ekki síst finnst mér spennandi umræðan um mat aldraðra á heilsu sinni og á lífsgæðum.

Í embætti heilbrigðisráðherra hef ég lagt áherslu á að halda áfram uppbyggingu þjónustu við aldraða, bæði þjónustu sem veitt er inni á stofnunum en ekki síður þjónustu sem veitt er utan stofnana, á vettvangi heilsugæslu og heimaþjónustu.

Með forvörnum og heilsueflingu aukast tækifærin til að njóta lífsgæða og góðrar heilsu fram á efri ár og það styður möguleika fólks til þess að búa lengur heima. Þetta eru mikilvæg markmið en á sama tíma þarf að tryggja aðgang að þjónustu eins og þörf er fyrir hverju sinni.

Mikilvægt er að efla enn frekar þjónustu hjúkrunarheimila og ekki síður að halda áfram að efla heilsugæslu aldraðra, heimahjúkrun og heimaþjónustu ásamt því að tryggja aðgang að dagdvöl. Góð samvinna og samfella í þjónustunni er lykilorð og gerir okkur kleift að gera enn betur og að nýta sem best þau úrræði sem eru til staðar.

Það er svolítið skemmtilegt að rifja það upp að eitt fyrsta opinbera verk mitt sem heilbrigðisráðherra var að flytja ávarp við opnun nýrrar hjúkrunardeildar við hjúkrunarheimilið Lund á Hellu, en það var í lok janúar á þessu ári. Með opnun deildarinnar heyra tvíbýli fyrir aldraða á Lundi sögunni til og jafnframt hefur verið sköpuð vönduð aðstaða fyrir heilabilaða íbúa heimilisins.

Til minna síðustu embættisverka sem heilbrigðisráðherra teljast einnig verkefni sem varða úrbætur í öldrunarþjónustu. Þann 17. október síðastliðinn kynnti ég nýja áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma til ársins 2022. Þar þótti mér sérstaklega ánægjulegt að geta greint frá byggingu 155 hjúkrunarrýma til viðbótar þeim 313 rýmum sem þegar eru á framkvæmdastigi samkvæmt eldri framkvæmdaáætlun.

Nú liggur því fyrir að alls verða byggð eða endurgerð tæplega 470 hjúkrunarrými til ársins 2022, ýmist til fjölgunar rýma eða til að bæta aðbúnað.

Og þar sem ég nefndi áðan eitt mitt fyrsta embættisverk sem var opnun hjúkrunardeildarinnar við Lund á Hellu, þá er rétt að ég haldi mig við Suðurland og segi frá því að meðal síðustu verka minna var að vera þátttakandi í kynningu á niðurstöðum hönnunarsamkeppni um nýtt hjúkrunarheimili sem rísa mun á bökkum Ölfusár við Selfoss.

Við sama tækifæri glöddust Sunnlendingar yfir formlegri ákvörðun sem heimilar stækkun nýja hjúkrunarheimilisins um 10 rými umfram það sem upphaflega var ráðgert. Þörfin fyrir þessa aukningu var brýn og óumdeild og því einkar ánægjulegt að geta orðið við þessari ósk Sunnlendinga um stækkun heimilisins.

Fjölgun hjúkrunarrýma og endurbætur á eldri heimilum með bættan aðbúnað að markmiði er stórt mál og mikilvægt. En það er ekki síður mikilvægt að auka og efla þjónustu við aldraða sem gerir þeim kleift að búa sem lengst á eigin heimili við góðar aðstæður.

Því var það einkar ánægjulegt að geta ráðstafað 250 milljónum króna af safnlið heilsugæslustöðva til að efla heimahjúkrun og heimaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu, líkt og ég tilkynnti þann 26. október síðastliðinn.

Miðað er við að fjölga heilbrigðisstéttum sem koma að þjónustunni og verður auknum fjármunum varið til að ráða sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa og aðrar heilbrigðisstéttir til að efla getu fólks og færni.

Fólk vill búa heima ef það mögulega getur og góð þjónusta við fólk í heimahúsum sem dregur úr þörf þess fyrir sjúkrahúsþjónustu eða varanlega dvöl á hjúkrunarheimili er ómetanleg fyrir þá sem eiga í hlut. Ráðstöfun fjármuna sem stuðlar að þessu er því bæði réttmæt og skynsamleg.

Fyrir skömmu kom út ný skýrsla OECD sem gefin er út árlega og heitir Health at a Glance, þar sem tíundaðir eru ýmsir þættir sem lúta að heilbrigðismálum aðildarríkja OECD, bæði varðandi heilsufar íbúanna og heilbrigðisþjónustu. Það er áhugavert að skoða þær tölur sem þar koma fram – og verulega gott að sjá hvað Ísland kemur þar vel út í mörgum efnum.

Þessi niðurstaða er í takt við grein sem birt í læknatímaritinu Lancet fyrr á árinu þar staða íslenskrar heilbrigðisþjónustu fær mjög góða einkunn í samanburði við önnur lönd.

Í skýrslu OECD kemur fram að þrír af hverjum fjórum fullorðinna á Íslandi, eða 76% töldu sig við góða eða mjög góða heilsu þegar um það var spurt árið 2015, samanborið við 68% fullorðinna í OECD löndunum að meðaltali. Lífslíkur karla hér eru 81,2 ár og erum við þar í efsta sætinu, en lífslíkur kvenna eru 83,8 ár sem skipar okkur í 15. sæti ríkjanna.

Þetta er góð niðurstaða og ef við horfum til þeirra áhrifaþátta heilsu sem stuðlað hafa að aukinni meðalævilengd á liðnum árum, er ekki óvarlegt að ætla að öldruðum við góða heilsu haldi áfram að fjölga hér á landi.

Hér er mikilvægt að standa vörð um góðan árangur, halda áfram að gera betur og huga að öllum þáttum sem hafa áhrif á heilsu og lífsgæði á efri árum.

Ánægjulegt er að forvarnir og heilsuefling aldraðra hefur fengið aukið vægi undanfarin ár, til dæmis á vettvangi sveitarfélaga og í tengslum við verkefnin um heilsueflandi samfélög.

Góðir gestir, um allt þetta og margt fleira gefst okkur kostur á að fræðast um á þessari ráðstefnu hér í dag svo ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri, en óska ykkur öllum góðra stunda og afmælisbarninu, Sjómannadagsráði, óska ég gæfu og gjörvileika.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum