Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Fyrstu Réttindaskólar á Íslandi hlutu viðurkenningu UNICEF

Í tilefni af alþjóðlegum degi barna og afmælis Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hlutu fyrstu Réttindaskólar UNICEF á Íslandi viðurkenningu nýverið en UNICEF hlaut styrk frá Menntamálaráðuneytinu til að þróa verkefnið.

Það voru fulltrúar í réttindaráðum Flataskóla og Laugarnesskóla sem tóku við viðurkenningum við hátíðlega athöfn í Flataskóla. Auk skólanna tveggja hlutu frístundaheimilin Krakkakot og Laugarsel einnig viðurkenningu sem Réttindafrístund.

Skólarnir þurfa að uppfylla fimm forsendur Réttindaskóla UNICEF, sem byggja á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. UNICEF á Íslandi heldur utan um innleiðingu Réttindaskólans og hefur þegar verið opnað fyrir umsóknir frá nýjum skólum sem vilja taka þátt á heimasíðu UNICEF á Íslandi. Rannsóknir á áhrifum Réttindaskóla erlendis, hafa sýnt fram á jákvæðar breytingar á skólabrag, börn urðu betri í að standa vörð um eigin réttindi og vellíðan þeirra jókst.

Stjórn athafnarinnar var í höndum barna og afhentu börn úr Flataskóla skilaboð til ráðamanna. Það var Ævar Þór Benediktsson, einnig þekktur sem Ævar vísindamaður, sem tók við skilaboðunum og lofaði að koma þeim til skila þegar ný ríkisstjórn verður tekin við í landinu.

„Við erum afar stolt af skólunum og frístundaheimilunum sem tóku þátt í þessu verkefni með okkur, þau sýndu og sönnuðu að réttindamiðuð nálgun skilar sannarlega góðum árangri fyrir bæði börn og fullorðna. Við hlökkum til að vinna með fleiri skólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum að réttindum barna,“ segir Nílsína L. Einarsdóttir, sem leitt hefur Réttindaskólaverkefnið fyrir hönd UNICEF.

Nánar má lesa um verkefnið á vef UNICEF.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn