Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Fundur Landssambands heilbrigðisstofnana

Ávarp Óttars Proppé heilbrigðisráðherra 

Góðan dag ágætu gestir.

Ég þakka ykkur fyrir að bjóða mér að ávarpa ykkur hér í upphafi þessa fundar.

Líklega verður þetta síðasta ávarp mitt sem heilbrigðisráðherra, að minnsta kosti að sinni.

Ég vil því áður en lengra er haldið þakka ykkur fyrir gott samstarf á þessum tíma sem ég hef notið þeirra forréttinda að fara með stjórn heilbrigðismála í velferðarráðuneytinu.

Þetta hefur verið lærdómsríkur tími og ég leyfi mér að segja að ýmsum mikilvægum málum hafi verið hrundið í framkvæmd eða komið á rekspöl á þessum stutta tíma.

Mér hefur þótt ánægjulegt og mikilsvert að sjá hve mikill mannauður er á heilbrigðisstofnunum landsins, hvort heldur er í þéttbýli eða í dreifbýli, á sjúkrahúsum, í heilsugæslunni eða á stofnunum fyrir aldraða.

Ég hef líka orðið þess áskynja hversu mikill metnaður er hjá stjórnendum og fagfólki innan heilbrigðisþjónustunnar.

Ég þori að fullyrða að allir leggja sig fram um að veita örugga þjónustu, af bestu mögulegu gæðum, við þær aðstæður sem uppi eru hverju sinni.

Því miður er það þó svo að minna er um lof en last þegar kemur að opinberri umræðu um heilbrigðisþjónustuna, hvort heldur er í hefðbundnum fjölmiðlum eða samfélagsmiðlum.

Um það þýðir ekki að fást, en við sem þekkjum líka það sem vel er gert eigum að gera okkar til að halda því á lofti og benda á staðreyndir í þeim efnum.

 

Góðir gestir

Mikil umræða hefur verið um heilbrigðiskerfið og heilbrigðisþjónustuna á síðustu vikum og mánuðum, ekki hvað síst í aðdraganda kosninganna og í stjórnarmyndunarviðræðunum.

Ég fagna þessari umræðu enda heilbrigðisþjónustan grunnstoð í hverju samfélagi og við eigum öll að láta okkur varða skipulag hennar og gæði.

Það var sérstök ánægja að eiga samtal við nokkur ykkar á fundi með forstöðumönnum opinberu heilbrigðsstofnana um miðjan ágúst síðastliðinn.

Þar áttum við samtal um brýn mál heilbrigðisþjónustunnar með sérstakri áherslu á samvinnu milli stofnana og teymisvinnu á stofnunum. Og settar voru fram tillögur um forgangsverkefni að mati fulltrúa stofnanna.

Fram kom hversu einróma fundarmenn voru um mikilvægi þess að efla enn frekar formlega samvinnu stofnana bæði til að bæta gæði þjónustunnar og til að bæta aðstæður starfsfólks t.d. með tækifærum til þróunar í starfi í gegnum samvinnu, starfsmannaskipti og fleira slíkt.

Fundurinn í dag er sömuleiðis merki um þennan eindregna vilja til samstarfs og það er von mín að þetta góða samstarf haldi áfram að eflast og þróast.

Það var sérstök ánægja að meðal mikilvægustu verkefnanna sem fundurinn í ágúst gerði tillögu um var að efla fjarheilbrigðisþjónustu, samræma ferla og að efla starfsmannaskipti sem allt miðar að því að bæta gæði þjónustunnar og nýta sem allra best þau úrræði og þann mannafla sem heilbrigðisþjónustan býr yfir.

Á fundinum var einnig sérstaklega rætt um mikilvægi þess að skapa enn betri tengingu stofnana um landið við stóru stofnanirnar á höfuðborgarsvæði og þar var einkum rætt um leiðandi hlutverk Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Í þessu ljósi er ánægjulegt að horfa til þess að bygging nýs Landspítala hefst á næsta ári og sömuleiðis tekur nýtt Sjúkrahótel við Landspítala til starfa á nýju ári.

Einnig má líta á það sem þróun í þessa átt að nú hefur verið staðfest breyting á reglugerð um heilsugæslustöðvar sem felur í sér að Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er falið að leiða faglega þróun innan heilsugæslu á landsvísu.

Liður í því er að samræma verklag og samhæfingu milli fagfólks á heilsugæslustöðvum, annast gæðaþróun og stuðla að framþróun í heilsugæslu, í samráði við heilbrigðisstofnanir sem reka heilsugæslustöðvar.

Allt er þetta liður í að styrkja og þróa heilbrigðisþjónustuna sem heild og að bæta gæði þjónustunnar.

Framundan er að fylgja eftir ýmsum kerfisbreytingum sem gerðar hafa verið undanfarin misseri.

Til dæmis að fylgja eftir hinu nýja greiðsluþátttökukerfi, rýna vel í reynsluna af því kerfi og halda áfram að þróa það í átt að markmiðinu um að allir hafi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu, félagslegri stöðu eða efnahag.

Sömuleiðis er mikilvægt að fylgja eftir nýju fjármögnunarlíkani heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem hefur aukið mjög skilvirkni og bætt kostnaðargreiningu í kerfinu.

Hér er mikilvægt að fylgjast vel með hversu vel gengur að kerfið nýtist til að tryggja gæði þjónustunnar og stuðla að aukinni samfellu í þjónustu við sjúklinga.

Einnig er mikilvægt að kerfið styðji við þverfaglega þjónustu innan heilsugæslunnar. Ég trúi því og treysti að áfram verði unnið að því að styrkja heilsugæsluna og þjónustu hennar með aðkomu fleiri fagstétta, svo sem næringarráðgjafa, sjúkraþjálfara og félagsráðgjafa í takt við áætlanir þar um.

Vel hefur gengið að fylgja eftir nýrri geðheilbrigðisáætlun, t.d. með fjölgun á stöðum sálfræðinga í heilsugæslunni.

Mikilvægt er gera enn betur í eflingu geðheilbrigðisþjónustu bæði á vettvangi heilsugæslu og stofnana.

Starf Landspítala styrkist við það að fá skýrari mynd af starfseminni með innleiðingu DRG fjármögnunarkerfisins. Okkur er öllum ljóst að að gera verður spítalnum betur kleift að einbeita sér að kjarnastarfsemi spítalans meðal annars með því að halda áfram að styrkja þjónustu við aldraða í samfélaginu, ekki síst með öflugri heimaþjónustu til aldraðra auk þess að fjölga hjúkrunarrýmum

Það var ánægjulegt að geta fyrir skömmu kynnt breytingar á framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma sem nær til ársins 2022 og kveður á um byggingu 155 hjúkrunarrýma til viðbótar þeim 313 rýmum sem þegar eru á framkvæmdastigi samkvæmt eldri áætlun.

Alls munu því verða byggð eða endurgerð 468 hjúkrunarrými á tímabilinu ýmist til fjölgunar rýma eða til að bæta aðbúnað þar sem aðstæður standast ekki kröfur samtímans.

Í lok október gat ég einnig gert grein fyrir ákvörðun minni um að ráðstafa 250 milljónum króna af safnlið heilsugæslustöðva til að efla heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu sem veitt er af hálfu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Heimaþjónustu Reykjavíkur sem borgin rekur. Þetta framlag skiptir meðal annars máli við að minnka álag á Landspítala og til að draga úr þörf aldraðra fyrir hjúkrunarrými sem skortir svo tilfinnanlega á höfuðborgarsvæðinu.

Ágætu gestir.

Þótt okkur miði áfram á leið að enn betri heilbrigðisþjónustu eru samt sem áður stór verkefni framundan. Það stærsta er líklega það verkefni sem við höfum kallað „Hver geri hvað“ í heilbrigðisþjónustunni, þ.e. að skýra enn betur hlutverk og skyldur hvers og eins innan kerfisins og tengja það við heildræna stefnu í heilbrigðismálum.

Mér skilst að í dag ætlið þið meðal annars að lýsa ykkar viðhorfum, sem stjórnendur heilbrigðisstofnana, til þess hvert hlutverk ykkar stofnana á að vera og hvaða þjónustu á ekki að veita þar.

Þetta eru grundvallar spurningar sem svara þarf til að unnt sé að tryggja heildstæða, skilvirka og örugga þjónustu, sem veitt er á viðeigandi þjónustustigi miðað við þarfir hvers og eins – og til að þeim fjármunum sem varið er til heilbrigðisþjónustu sé varið skynsamlega.

Þá þarf einnig að tryggja eins og kostur er að landsmenn hafi jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag, búsetu eða öðrum þáttum.

Við verðum þó að horfast í augu við það, sem lítil þjóð í stóru landi, að sérhæfð þjónusta verði fyrst og fremst í boði í stærstu byggðarlögunum.

Það þarf þó ekki að þýða að aðrir en þeir sem þar búa þurfi að fara um langan veg til að leita sér sjálfsagðrar heilbrigðisþjónustu.

Við þurfum að hætta að líta á það sem sjálfsagðan hlut að sjúklingurinn ferðist alltaf til sérfræðingsins, sérfræðingurinn á ekki síður að ferðast til sjúklingsins, hvort heldur sem er í eiginlegri merkingu eða með notkun búnaðar til fjarheilbrigðisþjónustu.

Notkun slíks búnaðar á ekki að vera eitthvert sérstakt verkefni, með upphaf og endi, heldur aðeins ein leið af mörgum til að veita sjúklingi heilbrigðisþjónustu, eða til að fagaðilar geti handleitt og leiðbeint hverjir öðrum í daglegum störfum.

Ég vil líka nefna hér að samhliða því sem við breytum þjónustu á landsbyggðinni þarf að vera tryggt að íbúar þeirra svæða komist fljótt og örugglega í sérhæfða heilbrigðisþjónustu þegar á þarf að halda.

 

Góðir gestir.

Það styttist í að ég standi upp úr stóli heilbrigðisráðherra og nýr ráðherra málaflokksins komi í minn stað.

Ég vona innilega að arftaki minn í nýrri ríkisstjórn komi til starfa með einbeittan vilja og kraft til þess að efla íslenska heilbrigðiskerfið og halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið.

Þar horfi ég ekki síst til þess markmiðs að móta skýrari stefnu og sýn til framtíðar fyrir heilbrigðiskerfið, með áherslu á að skilgreina betur skipulag og markmið þjónustunnar og að skilgreina betur, – í góðri samvinnu við ykkur, hver eigi að gera hvað í þágu skilvirkrar heilbrigðisþjónustu þar sem öryggi hennar og gæði eru í hávegum höfð, fyrir alla landsmenn.

Ég vil að lokum þakka ykkur fyrir góða viðkynningu og gott samstarf og óska ykkur velfarnaðar í vandasömum og mikilvægum störfum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum