Hoppa yfir valmynd
1. desember 2017 Félagsmálaráðuneytið

Ásmundur Einar Daðason nýr félags- og jafnréttismálaráðherra

Nýr ráðherra félags- og jafnréttismála, Ásmundur Einar Daðason, tók við lyklum að skrifstofu sinni úr hendi Þorsteins Víglundssonar forvera síns í velferðarráðuneytinu í dag.

Ásmundur Einar segir augljóst að í mörg horn verði að líta í nýja embættinu, enda margir málaflokkar sem heyri undir félags- og jafnréttismálaráðherra og allir mikilvægir: „Af einstökum málum vil ég m.a. nefna mikilvægar umbætur í húsnæðismálum, samstarf við aðila vinnumarkaðarins til að stuðla að ábyrgum vinnumarkaði. Ég nefni líka lengingu fæðingarorlofs og hækkun orlofsgreiðslna, hækkun frítekjumarks atvinnutekna aldraðra, samráð við örorkulífeyrisþega um breytingar á bótakerfinu og lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Síðast en ekki síst mun ég leggja mikla áherslu á að vinna gegn fátækt barna í íslensku samfélagi og að við ráðumst í markvissar aðgerðir til að tryggja velferð barna óháð efnahag. Þetta eru stór verkefni sem ég hlakka til að vinna að með góðu fólki“ sagði Ásmundur Einar meðal annars þegar hann kom til starfa í velferðarráðuneytinu í dag.

Ásmundur Einar var kjörinn á þing fyrir Norðvesturkjördæmi árið 2009, gegndi þingmennsku til ársins 2016 og tekur nú aftur sæti á Alþingi. Á þingi hefur hann setið í allsherjarnefnd, fjárlaganefnd, menntamálanefnd, sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, félags- og trygginganefnd, samgöngunefnd, umhverfis- og samgöngunefnd og utanríkismálanefnd. Hann hefur einnig átt sæti í Íslandsdeild Norðurlandaráðs og Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins.


Ásmundur Einar er fæddur í Reykjavík 29. október 1982. Maki hans er Sunna Birna Helgadóttir og eiga þau saman þrjár dætur.

Æviágrip Ásmundar Einars Daðasonar á vef Alþingis

Samstarfssáttmáli ríkisstjórnarinnar

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira