Hoppa yfir valmynd
1. desember 2017 Dómsmálaráðuneytið

Sigríður Á. Andersen er dómsmálaráðherra

Þau tóku á móti Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra í morgun. Frá vinstri: Haukur Guðmundsson ráðuneytisstjóri, Sigurveig Björnsdóttir, ritari ráðherra, Sigríður og Laufey Rún Ketilsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra. - mynd

Sigríður Á. Andersen gegnir áfram embætti dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem tók við á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í gær.

Sigríður gegndi embætti dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sem tók við 11. janúar á þessu ári fram til 30. nóvember.

Sigríður er fædd 1971 og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1999. Sigríður var lögfræðingur hjá Verslunarráði Íslands árin 1999-2005 og héraðsdómslögmaður á árunum 2007-2015. Sigríður var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Reykjavíkurkjördæmi frá árinu 2007 til 2015 er hún tók fast sæti á Alþingi. Sigríður sat í dómstólaráði 2004-2009, í stjórn Andríkis, útgáfufélags, 1995–2006, í ritstjórn Vefþjóðviljans 1995–2006, stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, 1996–1997, í stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík og í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 2005–2009. Þá var hún formaður Félags sjálfstæðismanna í Vestur- og miðbæ 2006–2009, formaður Spánsk-íslenska viðskiptaráðsins 2007–2011 og í stjórn Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins frá 2013-2017. Sigríður var einn stofnenda og talsmanna Advice, félags sem hafði það að markmiði að miðla upplýsingum um mikilvægi þess að hafna Icesave lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl 2011. Sigríður er 1. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður síðan 28. október 2017. Eiginmaður hennar er Glúmur Jón Björnsson efnafræðingur og eiga þau tvær dætur.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum