Hoppa yfir valmynd
6. desember 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Mennta- og menningarmálaráðherra skipaður í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins og ráðherranefnd um jafnréttismál

 Lilja Alfreðsdóttir - mynd
Hlutverk ráðherranefndar um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins er að samræma stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og hafa eftirlit með framkvæmd efnahagsstefnunnar á einstökum sviðum. Meðal þeirra verkefna sem nefndin fjallar um er framtíðarskipulag peningamála og samræming í fjármálum hins opinbera til skemmri og lengri tíma. Nefndin er auk þess stefnumótandi og í forystu varðandi samskipti við aðila vinnumarkaðarins, uppbyggingu fjármálakerfisins og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi með tilliti til efnahagsmála. Þá er henni jafnframt ætlað að vera vettvangur samráðs og samræmingar við endurskoðun fjármálakerfisins í samræmi við þá áherslu í sáttmála ríkisstjórnar að breið sátt náist um endurskipulagningu fjármálakerfisins á Íslandi. Forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra eiga fast sæti í nefndinni auk mennta- og menningarmálaráðherra.

Hlutverk ráðherranefndar um jafnréttismál verður að samhæfa störf ráðherra og ríkisstjórna á sviði jafnréttismála, s.s. vegna lengingar fæðingarorlofs og hækkunar orlofsgreiðslna í fæðingarorlofi, baráttu gegn kynbundnum launamun og að sambærileg störf séu metin með sambærilegum hætti og að Ísland verði í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks. Nefndinni er jafnframt ætlað að fjalla um aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota og lagaumhverfi kynferðisbrota, með það að markmiði að styrkja stöðu kærenda kynferðisbrota, og um undirbúning Istanbúl-samningsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.  Forsætisráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra auk mennta- og menningarmálaráðherra eiga fast sæti í nefndinni. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum